145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það gleður mig að fá tækifæri til að tala meira um barnabótakerfið. Við á Norðurlöndunum njótum þeirrar lukku að eiga mörg börn og það kemur ekki til af sjálfu sér. Norrænar konur eru ekkert sérstaklega öðruvísi en aðrar konur þegar kemur að því, nema aðstæðurnar sem okkar eru skapaðar eru betri. Bæði er meira jafnrétti á heimilum og konur þurfa ekki að velja á milli þess að vinna úti og eiga börn því að við erum með vel uppbyggt leikskólakerfi þó að við viljum bæta það fyrir smábarnafjölskyldurnar. Á Norðurlöndunum hafa barnabæturnar líka spilað mikilvægt hlutverk því að þeim er ætlað að jafna kjör innan tekjubils. Við getum tekið tvo einstaklinga með 400 þús. kr. í tekjur á mánuði. Annar á ekkert barn en hinn er með þrjú börn á framfæri og það liggur í augum uppi að ráðstöfunartekjur þess með börnin þrjú verða mun minni. Þess vegna koma barnabæturnar til, til að jafna kjörin og til að þeir sem ákveða að eignast börn séu ekki ósjálfrátt eða samhliða að ákveða þá að verða með mun lakari ráðstöfunartekjur, yfir 25–30 ára tímabil jafnvel.

Hið eiginlega hlutverk barnabótanna er að tryggja sæmilegar ráðstöfunartekjur samhliða því sem framfærslubyrðin eykst. Við höfum breytt barnabótakerfinu í einhvers konar kerfi fátækra, en fátækt þarf að mæta með öðrum hætti. Þegar hv. þm. Oddný Harðardóttir var fjármálaráðherra byrjaði hún að auka í barnabótakerfið einmitt eftir erfiða niðurskurðartíma og þá notaði hún við fyrsta tækifæri möguleikana til að bæta í barnabótakerfið til að færa það (Forseti hringir.) nær hinu norræna kerfi.