145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri er það algerlega rétt að við þurfum að skoða þessi viðmið. Ég ætla að leyfa mér að segja að það er mitt mat að í velferðarnefnd sé einhugur um að skoða þetta, ekki síst vegna þess að það eru áhyggjur af því núna þegar svo langir biðlistar eru á Íslandi, og við viljum öll að sjúklingar komist sem fyrst undir læknishendur, að þrýstingurinn sé svo mikill á að komast erlendis að það kunni að hafa þær afleiðingar að erfiðara muni ganga að veita fé í biðlista hér.

Ég vil endurtaka að það er einhugur um það í velferðarnefnd að tryggja sjúklingum sem fyrst góða þjónustu en stíga varfærin skref þegar kemur að heilbrigðisþjónustu yfir landamæri þannig að við höfum að minnsta kosti yfirsýn yfir hvað það þýðir að opna á slíka þjónustu.

Varðandi fjármögnunina, rekstrarformið og allt það hef ég lagt fram fyrirspurnir og fengið mjög loðin svör. Það var hér yfirlýsing í kjölfar læknasamninga um breytingar og umbætur á heilbrigðiskerfinu. Það hefur aldrei verið boðið upp í pólitískt samtal um þau mál og það er skrýtið þar sem það er ekkert sem sameinar þjóðina jafn mikið og viðhorfin til heilbrigðiskerfisins. Þangað á að forgangsraða skattfé og það á fyrst og fremst að vera í höndum hins opinbera. Þetta eru Íslendingar almennt sammála um óháð flokkslit, aldri eða búsetusvæðum. En hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) virðist ekki þora að ræða áform sín á pólitískum vettvangi því að kannski grunar hann og veit að þau eru ekki endilega í anda þess sem almenningur vill.