145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:26]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni að það sem sameinar eitt samfélag mest og öðru fremur er heilbrigðiskerfið, gott heilbrigðiskerfi og góð heilbrigðisþjónusta. Ég þekki það úr eigin sálarlífi sem formaður BSRB á þriðja áratug, 21 ár, að mér þótti það alltaf vera mikilvægasti kjaraþátturinn að standa vörð um velferðarþjónustuna og þá sérstaklega heilbrigðiskerfið því að ef eitthvað ber út af í lífi okkar, fjölskyldu okkar eða í samfélaginu almennt þá er það þetta sem skiptir okkur öll langmestu máli.

Ég hef stundum sagt þá sögu og ætla að gera það eina ferðina enn að ég mun aldrei gleyma því þegar ég heimsótti góðan vin minn sem lá með mjög alvarlegan höfuðsjúkdóm á Borgarspítalanum og þurfti að fara í nákvæma myndatöku og var ekið í sjúkrabíl upp í Domus Medica vegna þess að þar voru miklu betri tæki en á Landspítalanum. Hver hafði greitt fyrir þessi fínu tæki í Domus Medica? Það gerðum við, það gerðu skattgreiðendur, þeir höfðu greitt þetta allt. Við erum að taka öllum stundum ákvarðanir um ferla fyrir fjármagnið og það sem ríkisstjórnin og hæstv. heilbrigðisráðherra er að gera er að búa til nýja farvegi sem liggja út í þessar áttir. Það er bara hlutur sem kemur okkur öllum við og við eigum að ræða mjög rækilega áður en haldið er frekar út á þá braut sem tvímælalaust er í andstöðu við vilja þorra Íslendinga. Það hefur aftur og ítrekað komið fram, nú síðast í nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.