145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:28]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kem hingað í mína aðra ræðu um fjáraukalögin vegna þess að mig langar að ræða betur um breytingartillögu minni hluta hv. fjárlaganefndar sem liggur fyrir. Mér gafst hreinlega ekki tími í fyrri ræðu minni í gær að ræða hana jafn ítarlega og ég hefði kosið. Ég kem nú í aðra ræðu til að gera þessu efni betri skil.

Frú forseti. Nú hafa þó nokkuð margar ræður verið fluttar hér síðan ég talaði í gær. Það er gríðarlega áberandi að fyrst og fremst hafa þingmenn minni hlutans á Alþingi tekið til máls, en þeir sem þó hafa talað af hálfu stjórnarmeirihlutans á þingi hafa ekki beinlínis léð máls á eða tekið vel í breytingartillögu minni hlutans sem fjallar um að kjör eldri borgara og öryrkja verði bætt í samræmi við hækkun lægstu launa og að sú hækkun verði afturvirk, þ.e. frá 1. maí á þessu ári, í takt við það sem allir aðrir hafa fengið. Allir aðrir hópar hafa fengið kjarabætur aftur í tímann á þessu ári og þar erum við hv. þingmenn ekki undanskildir.

Til þess að setja þessa tillögu í samhengi við þann veruleika sem öryrkjar búa við í íslensku samfélagi þá langar mig, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í grein sem Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður Öryrkjabandalags Íslands, og María Óskarsdóttir, formaður málefnahóps ÖBÍ um kjaramál, skrifuðu í Morgunblaðið í gær 3. desember á alþjóðadegi fatlaðs fólks. Í þessari grein segir, með leyfi forseta:

„Á næstu dögum fer fram 2. umræða um fjárlög 2016. Í þeim er boðað að lífeyrisþegar fái 9,4% hækkun, sem tekur gildi 1. janúar 2016. Það þýðir að einstaklingar sem reiða sig eingöngu á lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins munu fá um það bil 11.000 kr. hækkun í vasann þegar búið er að greiða opinber gjöld. Lágmarkslaun hækkuðu 1. maí um tæp 20.000 kr. eftir skatta, rétt er að geta þess að einungis 1% launamanna er á lágmarkslaunum í landinu. Þetta þýðir enn meiri kjaragliðnun milli lífeyrisþega og launamanna. Nú er því svo komið að óskertur lífeyrir almannatrygginga nemur tæpum 80% af lægstu launum og aðeins um 37% af meðallaunatekjum. Það var einnig köld vatnsgusa sem lífeyrisþegar fengu þegar kjararáð ákvað að embættismenn og alþingismenn fengju 9,3% hækkun afturvirkt frá 1. mars.

Lífeyrisþegar, þ.e. örorku- og ellilífeyrisþegar, eru orðnir hundleiðir á því að alltaf sé talað um prósentutöluhækkanir og að lífeyrisþegar hækki jafn mikið og aðrir í þjóðfélaginu. Prósentur af lágum lífeyri eru líka lágar upphæðir. Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við, í maí 2013, hefur óskertur lífeyrir almannatrygginga hækkað um rúm 6% sem þýðir hækkun ráðstöfunartekna frá janúar 2013 um rúmlega 10.000 kr. á mánuði. Þetta er nú öll hækkunin.

Þær hækkanir sem boðaðar eru nú koma einnig allt of seint. Af hverju geta lífeyrisþegar ekki fengið afturvirkar hækkanir eins og aðrir þjóðfélagshópar? Fólk sem þarf að lifa á 170.000–190.000 kr. á mánuði nær ekki að framfleyta sér með viðunandi hætti. Við hjá ÖBÍ sjáum að það fólk sem leitar til okkar er í mikilli örvæntingu og neyð um hver mánaðamót og sér hreinlega ekki fram á að geta látið heimilisbókhaldið ganga upp, t.d. með því að kaupa sér mat, sækja sér heilbrigðisþjónustu eða leysa út nauðsynleg lyf.

Alþingismenn þurfa að átta sig á því að það er mjög dýrt fyrir samfélagið að halda fólki í fátæktargildru og fullyrða undirrituð að það er mun dýrara þegar til lengri tíma er litið.“

Þetta voru sem sagt orð varaformanns Öryrkjabandalags Íslands og formanns málefnahóps ÖBÍ um kjaramál í grein í Morgunblaðinu í gær á alþjóðadegi fatlaðs fólks. Þetta segir okkur raunar allt um þau kjör sem öryrkjar búa við í íslensku samfélagi í dag. Það er nákvæmlega þess vegna sem breytingartillaga minni hlutans í hv. fjárlaganefnd er svo mikilvæg. Það verður að bæta kjör öryrkja og ellilífeyrisþega afturvirkt eins og annarra hópa.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók fyrr í dag til máls og sagði að Alþingi bæri að sjá til þess að öryrkjar gætu lifað mannsæmandi lífi. Því er ég auðvitað alveg sammála. Mér finnst gott að þetta hafi komið fram hjá hv. þingmanni sem er einnig þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Það er mikilvægt að hún skyldi segja þetta hér í umræðunni. En hv. þingmaður sagði líka að hún teldi að kjör lífeyrisþega væru ekki bundin kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Þessu er ég algerlega ósammála. Líkt og kom einnig fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur þá velur enginn að vera öryrki. Það er nákvæmlega þess vegna, að fólk er ekki öryrkjar að vali, sem okkur sem samfélagi ber að tryggja að þeir lifi ekki við lakari kjör en aðrir. Ég vil persónulega ekki búa í samfélagi þar sem það er í raun innbyggt í kerfið að öryrkjar eigi að vera undirskipaðir og búa við verri kjör en aðrir þjóðfélagshópar. Að því sögðu tel ég mjög mikilvægt að jafna hér kjörin og tala ég þá sérstaklega um að jafna kjörin upp á við, þ.e. bæta kjör þeirra sem hafa lágar tekjur og lágar ráðstöfunartekjur.

Það er vissulega svoleiðis í okkar samfélagi að of margir geta illa framfleytt sér af launum sínum. Það að þetta skuli vera staðan má samt alls ekki þýða að öryrkjar eigi að vera verr settir. Þannig samfélag held ég að sé einfaldlega vont samfélag. Þess vegna vil ég enn og aftur ítreka að breytingartillögu minni hlutans við fjáraukalögin, um að greiðslurnar verði afturvirkar frá 1. maí á þessu ári, verður að samþykkja, samfélaginu öllu til heilla, ekki bara fyrir öryrkja. Með því að búa öryrkjum mannsæmandi lífskjör erum við líka að tryggja þeim þátttöku í samfélaginu. Samfélagið allt græðir á því að allir samfélagshópar geti keypt í matinn, búið börnum sínum gott umhverfi og góða framtíð.

Ég vil því enn og aftur ítreka og vona að hv. þingmenn, sérstaklega hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans sem hafa ekki tekið mikið til máls, taki þetta til sín og hlusti til að mynda á rök Öryrkjabandalagsins sem gætir jú hagsmuna öryrkja og er í raun verkalýðsfélag öryrkja.