145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015. Í ræðu minni ætla ég að dvelja við nokkur atriði. Eins og gefur að skilja verður ekki farið yfir öll atriði málsins á 20 mínútum en umræðan hefur verið bæði góð og gagnleg. En þó fer ekki nægilega mikið fyrir skoðanaskiptum, eins og oftar en ekki hér í þingsal, milli þeirra sem eru talsmenn málsins og bera það fram og þeirra sem hafa uppi gagnrýni eða álitamál. Mér finnst það vera almennt umhugsunarefni ef ekki áhyggjuefni hversu sjaldan Alþingi rís undir nafni sem sú málstofa pólitískra álitamála sem það ætti að vera, sá staður þar sem við skiptumst á skoðunum og leiðum flókin mál til lykta í opnu samtali sem allur almenningur hefur aðgang að.

Það sem við ræðum hér er í raun sá hluti fjárlagatengdra mála sem lýtur að ófyrirséðum atriðum sem upp hafa komið á yfirstandandi ári og ófyrirséð atvik, áhrif nýrra kjarasamninga eða nýrrar löggjafar á árinu eins og fram kemur í fjárreiðulögum. Í fjárreiðulögum er sérstaklega tiltekið að fjáraukalögum sé ekki ætlað að taka til nýrra verkefna, aukins umfangs starfsemi eða til dæmis rekstrarhalla einstakra ríkisstofnana umfram setta útgjaldaramma. Ég held að ekki verði fram hjá því litið að það virkar allt saman mjög sérkennilegt, að ég segi ekki hjákátlegt í því samhengi þegar menn eru á sama tíma að ræða hér miklar agaaðgerðir og endurskoðun á öllum verkferlum undir flaggi opinberra fjármála. Það gildir auðvitað það sama um opinber fjármál að þar erum við fyrst og fremst að setja okkur sjálfum reglur. Það er ekki eins og að við því séu mikil eða alvarleg viðurlög ef við förum ekki að þeim reglum sem við setjum okkur sjálf. Þá veltir maður fyrir sér hversu trúverðugt það er að menn treysti sér til að fara eftir reglum um opinber fjármál og þeim lögum sem þar verða væntanlega samþykkt á næstu dögum ef svo skýr lagabókstafur sem fjárreiðulög er að engu hafður eins og hér í frumvarpi til fjáraukalaga meiri hlutans og það jafnframt þó að fram komi mjög brattar athugasemdir frá ekki minni þingmanni en hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Hún fór hér mikinn í ræðu fyrr í dag og talaði um að enginn tæki mark á fjárreiðulögum, enginn tæki mark á fjáraukalögum og enginn tæki mark á fjárlögum og það væri allt saman til mikillar skammar að öllu leyti. En samt sem áður er það svo að allur meiri hluti sá er styður núverandi ríkisstjórn greiddi atkvæði með nákvæmlega því að fara fram með þeim hætti. Enn er það spurningin um orð og athafnir. Menn geta haft uppi mikil orð um að þetta séu ótæk vinnubrögð en halda þeim samt sem áður áfram.

Í fyrsta lagi lúta þær athugasemdir sem hv. minni hluti fjárlaganefndar gerir við frumvarpið að þessum þáttum, þ.e. þar kemur fram að um er að ræða allnokkrar tillögur sem voru fyrirséðar og eiga því alls ekki heima í frumvarpi til fjáraukalaga og verður ekki fram hjá því litið. Í öðru lagi langar mig að nefna það sem töluvert hefur verið rætt í umræðunni en er líka grundvallaratriði. Það er sú staðreynd að við erum með allnokkur mál til umfjöllunar hér á Alþingi og hjá Alþingi ekki til umfjöllunar og í samfélagsumræðunni þar sem framkvæmdarvaldið tekur sér gríðarlega mikið vald til þess að leggja áherslu á hugðarefni sín, til að forgangsraða fjármunum, til þess að breyta áferð og leiðsögn samfélagsins fram hjá Alþingi án þess að hafa til þess lýðræðislegt umboð þannig séð. Auðvitað er ríkisstjórnin alltaf í umboði Alþingis en það eru samt sem áður áhöld um að ríkisstjórnarflokkarnir hafi talað fyrir þeim áherslubreytingum til að mynda í aðdraganda kosninga eða á öðrum þeim vettvangi þar sem gagnsætt má teljast og almenningur hefði getað kynnt sér áherslubreytingar. Ég nefni til að mynda aukna áherslu á einkarekstur og einkavæðingu í velferðar- og heilbrigðiskerfinu sem ég minnist ekki að til að mynda Framsóknarflokkurinn hafi lagt mikla áherslu á í kosningabaráttunni.

Fleiri mál af þessu tagi, eins og að loka framhaldsskólunum fyrir 25 ára og eldri, minnist ég heldur ekki að hafi verið rædd í kosningabaráttunni, að það hafi verið á miðum í stórmörkuðum eða í bæklingum þar sem brosandi framsóknarmenn voru upp og niður síðu, að þeir lofuðu því að loka framhaldsskólunum fyrir 25 ára og eldri, ég man ekki eftir því. En þarna er verið að taka ákvarðanir sem Alþingi fær ekki í hendurnar á stefnumótunarstigi heldur situr uppi með þegar komið er að afgreiðslu fjárlaga. Það má kannski til sanns vegar færa að það sé þó skömminni skárra en það sem hér blasir við því að hér er hreinlega búið að ráðstafa fjármagninu í nokkrum liðum, fyrst og fremst þeim sem lúta að framkvæmdum við ferðamannastaði annars vegar og hins vegar framkvæmdum í vegagerð. Hér er ekki um að ræða einhverja málaflokka sem eru dregnir upp hipsumhaps. Þegar um er að ræða vegagerð, þann mikilvæga málaflokk, þá lýtur hún ákveðnum lögum um stefnumörkun og framvindu mála.

Við, löggjafinn, höfum komið okkur saman um að samgönguáætlun skuli lögð fram og unnin og samþykkt og rædd á Alþingi og að þar sé sýnileg forgangsröðun bæði verkefna og fjármuna og Alþingi gefi framkvæmdarvaldinu einhvers konar leiðsögn í því. Nú er staðan sú að sú ríkisstjórn sem nú er við völd hefur ekki afgreitt frá sér samgönguáætlun. Við erum án samgönguáætlunar. Nú erum við komin á mitt þriðja ár kjörtímabilsins og engin samgönguáætlun er í gangi. Það sem við fáum og er ætlað að horfast í augu við er að það eru handvaldir tilteknir vegaspottar og þeir fjármagnaðir jafnvel með blaðamannafundum, fréttatilkynningum, uppklappi og pírumpári á miðju ári og fjárveitingavaldinu er ekki bara stillt upp frammi fyrir orðnum hlut í útgjöldum, þ.e. fjárveitingahlutanum sem fjárlaganefnd er stillt upp frammi fyrir, heldur er það ekki síður staðreynd að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur heldur ekkert komið að þessu máli. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd situr að því er varðar samgönguhluta síns verkefnis með hendur í skauti og bíður eftir því að hugsanlega einhvern tíma komi einhver samgönguáætlun sem allnokkuð oft er búið að spyrja hæstv. ráðherra um og hún ku vera á leiðinni eins og hún hefur verið undanfarin missiri.

Hér erum við að tala um stefnumörkun og útgjaldaákvarðanir sem teknar eru fram hjá Alþingi. Það sama gildir um framkvæmdir við ferðamannastaði. Þar erum við að tala um fullkomið ráðleysi í stærsta og flóknasta málaflokki sem blasir við í samsetningu atvinnulífs á Íslandi í raun. Ríkisstjórnin skilar þar í raun auðu. Það sem blasir við okkur á Alþingi og hlýtur að vera jafn mikið áhyggjuefni fyrir stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðu er að hér er um að ræða gríðarlega stórar upphæðir, fleiri hundruð milljónir króna og á annan milljarð í tilviki Vegagerðarinnar, sem ráðstafað er án stefnumörkunar og án ákvarðanatöku í raun sem fram fer á vettvangi Alþingis. Ég held að það væri gagnlegt fyrir okkur á einhverjum tímapunkti að skoða og bera þetta verklag að þeim lærdómum sem stóð til að við ættum að draga af efnahagshruninu og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um breytt og bætt vinnubrögð hér á Alþingi og að styrkja þingið í sessi, að draga úr foringjaræði og yfirgangi framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafanum. Þetta er allt saman á blússandi siglingu í boði þessara ríkisstjórnarflokka. Það þingmál sem hér er til umræðu er sérlega óþægileg áminning um þann veruleika. Hvar á að ræða og taka ákvarðanir um forgangsröðun fjár og verkefna ef ekki á Alþingi? Það er þannig sem við höfum komið okkur saman um að ráðslaga með hagsmuni samfélagsins til skemmri og lengri tíma. Allt annað þýðir að fara á svig við þá sameiginlegu ákvörðun okkar allra í þessu samfélagi sem við köllum á tyllidögum lýðræðissamfélag þar sem við leggjum mikið upp úr að umboð sé fyrir hendi fyrir hverri ákvörðun.

Mig langar síðan að vekja máls að því sem lýtur að breytingartillögum minni hlutans og kannski fyrst og fremst þeirri sanngjörnu tillögu um að kjör eldri borgara og öryrkja verði bætt í samræmi við hækkun lægstu launa og greiðslur hækki frá 1. maí á þessu ári eins og laun á almennum markaði. Því er lagt til að veittir verði um 6,6 milljarðar kr. til að bæta kjör eldri borgara og öryrkja. Svo segir í nefndaráliti hv. minni hluta fjárlaganefndar. Ég er mjög hugsi yfir því hversu léttvæg umræðan hefur á köflum verið af hendi stjórnarmeirihlutans í þessu efni. Mér finnst að menn ræði það nánast eins og hér sé um að ræða tæknilegt úrlausnarefni en ekki hrollkaldan veruleika fjölda fólks á hverjum einasta degi og um hver einustu mánaðamót sem snýst ekki bara um eigin framfærslu og eigin möguleika til þess að lifa með reisn og til raunverulegrar þátttöku í samfélaginu heldur erum við líka að tala um þann hóp sem verst hefur orðið úti að því er varðar fátækt á Íslandi. Þetta er að mörgu leyti fátækasti hópurinn á Íslandi. Við vitum að hartnær 10% Íslendinga eiga í erfiðleikum með að ná endum saman um hver mánaðamót. Stór hluti þeirra er í þessum hópi sem hér er verið að leggja til að hækki til samræmis við það sem gerist á vinnumarkaði. Það er enginn samningafundur. Það er enginn sáttasemjari. Það er ekkert karphús. Það erum bara við. Bara þingsalurinn, bara við hér við þessa umræðu og þá atkvæðagreiðslu sem henni fylgir sem tökum ákvörðun um þessi mál. Kjör þessa hóps.

Þann 15. apríl 2014 á síðasta ári kynntu Barnaheill skýrslu um fátækt. Þar kom fram mjög sláandi úttekt um barnafátækt og afleiðingar hennar. Samtökin hafa átt viðtöl við fjölda barna sem búið hafa við fátækt og skort á efnislegum gæðum um langt skeið og kemur berlega í ljós hversu mikil áhrif viðvarandi skortur hefur á andlega líðan barna, líf þeirra alla daga og þroskamöguleika. Þeim líður þannig að þau séu minni máttar, þau forðast samveru við önnur börn, þau forðast samveru við jafnaldra sína utan skóla þar sem þau eru aftur og aftur útsett fyrir það að efnahagslegur munur er dreginn fram með einhverju móti. Stór hluti þessara barna á foreldra sem eru öryrkjar. Við megum ekki gleyma því að öryrkjar eru líka fjölskyldufólk. Öryrkjar eru líka fólk sem heldur barnaafmæli, sem heldur jól, sem langar að breyta til á sumardegi, sem lendir í því að missa fyllingu úr tönn, sem lendir í því að pústkerfið dettur í götuna, sem lendir í því að svalahurðin skellist og glerið brotnar, sem lendir í óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum, en hefur engan sveigjanleika og ekkert svigrúm í sínum daglega rekstri til að mæta hvorki smáum né stórum áföllum. Þetta er daglegt líf og daglegur veruleiki fjölskyldna sem þurfa að reiða sig á framfærslu frá þessu almannatryggingakerfi. Hér er ég að tala um fjölskyldufólk, virðulegur forseti.

Við megum ekki gleyma því þegar við erum að véla hér um tölur að á bak við allar þessar tölur er fólk. Bak við hverja einustu tölu sem við ræðum hér er fólk. Og meira að segja þó að þær heiti svo virðulegum nöfnum sem heildarjöfnuður eða frumtekjur eru alltaf manneskjur á bak við þær. Það er okkar skylda sem hér erum að vera hér fyrir heildina, fyrir almannahagsmunina. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talaði einhvern tíma um það hér að það væri mikilvægt fyrir fjárlaganefnd að standa í lappirnar frammi fyrir öllum þeim sem vilja fá meira. Ég ætla ekki að hafa neitt eftir henni orðrétt í því efni. Það má til sanns vegar færa. Það er sannarlega mikilvægt að standa vel í lappirnar frammi fyrir þeim sem vilja meira. En það er um leið okkar verkefni að hlusta eftir þeim röddum sem eru ekki háværastar og jafnvel þeim sem eiga sér enga málsvara. Hvaða raddir eru það? Skyldu það vera raddir barna? Skyldu það vera jafnvel raddir fátækra barna? Hver eru hagsmunasamtök fátækra barna nema Barnaheill? Reynum að setja okkur í þeirra spor. Reynum þegar við tökum ákvarðanir af þessu tagi eins og öllu öðru að ímynda okkur að í einu sæti við borðið þar sem verið er að taka ákvarðanir í þingflokksherbergi Framsóknarflokksins, í þingflokksherbergi VG, við ríkisstjórnarborðið, á fjárlaganefndarfundi, sitji fulltrúi fátækra barna. Öxlum ábyrgðina af því mikilvæga hlutverki að fanga þá rödd, skilja þá rödd og færa hana inn á þann vettvang þar sem verið er að taka ákvarðanir. Það er þarna sem ábyrgð okkar liggur og er ríkust. Þarna eru ekki stóru atkvæðin, þeir sem styrkja eða styðja og ýta flokkunum áfram í hverjum þeim tilfæringum sem þeir kjósa. En þetta er þegar allt kemur til alls okkar mikilvægasta hlutverk; að hlýða á raddir þeirra sem minnst völdin hafa í þessu samfélagi.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég geri ráð fyrir því að að aflokinni þessari umræðu verði greidd atkvæði um breytingartillögur minni hluta og meiri hluta. Ég vænti þess að hv. þingmenn meiri hlutans séu fleiri sammála mér og okkur í minni hlutanum í því að þarna sé um að ræða ekki bara pólitískt viðfangsefni heldur líka siðferðilegt verkefni. Okkur beri siðferðileg skylda til að koma til móts við kjör þessara hópa til jafns við það sem gerist á almennum vinnumarkaði, vegna þess að þetta er ekki samningaborð, hér er ekkert karphús. Það erum bara við sem tökum þessa ákvörðun og við sem öxlum skömmina ef við tökum hana ekki.