145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála þeirri túlkun hv. þingmanns og það er augljóst að í lögunum kemur fram að vafinn skuli túlkaður þeim í hag sem eru á bótum, þ.e. þiggja framfærslu sína út úr þessu kerfi. Ef það kemur fram að um mun er að ræða, þá skuli það atriði sem er betra vera skoðað miklu frekar.

Horfum til þess hver almenn launaþróun er af því að það er það sem talað er um í lögum um almannatryggingar. Ef ég yrði spurð hver almenn launaþróun á Íslandi undanfarna sex eða níu mánuði væri, þá mundi ég segja númer eitt að það hafi verið lögð áhersla á hækkun lægstu launa. Það er það fyrsta sem ég mundi nefna. Og þá yrði ég spurð: Af hverju var það gert? Það var vegna þess að það var litið svo á að lægstu laun væru orðin svo lág að þau dygðu ekki fyrir framfærslu. Er það ekki? Eru einhverjir sem mundu túlka þetta öðruvísi?

Þetta hefur yfirfærslugildi yfir á þessa hópa, öryrkja og aldraða, vegna þess að það gildir það sama, annars vegar að um er að ræða skýrustu einu aðgerðina innan almennrar launaþróunar undanfarin missiri — lægstu laun hækka sérstaklega — og þau rök að endar nái ekki saman, að þessir hópar hafi orðið eftir og að þetta dugi ekki til almennrar framfærslu eiga líka við. Ég held að það sé í raun og veru sama hvort við beitum þröngri lagahyggju eða bara einföldum sanngirnissjónarmiðum, niðurstaðan er sú hin sama að tillaga minni hlutans er þannig að hún á skilið stuðning hér á Alþingi.