145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

lækkun tryggingagjalds.

[15:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er víst innstæða fyrir tugmilljarða lækkun þess nú um áramótin. Það er einfaldlega val um skattheimtu. Það er val hæstv. fjármálaráðherra að leggja launaskatta á þekkingarfyrirtæki og lítil fyrirtæki.

Ef hann sér ekki svigrúm til þess í ríkisfjármálaforsendum að lækka tryggingagjaldið, af hverju hækkar hann ekki frekar tekjuskatt á öll fyrirtæki? Af hverju leggur hann tryggingagjald bara á þekkingarfyrirtæki, þar sem launakostnaður er 80% af rekstrarkostnaði en í álfyrirtækjum er launakostnaður 8%?

Þetta er ekkert annað en mismunun í skattheimtu. Það er verið að auka á aðstöðumun milli atvinnugreina. Ríkisstjórnin er búin að lækka auðlindagjöld á sjávarútveginn. Hún passar að setja ekki gjöld á komu ferðamanna og rukkar þar með ekki ferðaþjónustuna fyrir sanngjarnan hlut í uppbyggingu ferðamannastaða en hún ætlar að láta þekkingarfyrirtæki bera byrðar umfram önnur fyrirtæki í landinu.

Það er engin ástæða til að gera þetta. Þetta er pólitískt val af hálfu fjármálaráðherrans og hann væri þá maður að meiri ef hann kæmi með aðrar tillögur eins og almenna hækkun tekjuskatts, annaðhvort á einstaklinga eða fyrirtæki, og lækkaði tryggingagjald á móti.