145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

lækkun tryggingagjalds.

[15:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ólíkt þeirri ríkisstjórn sem hv. þingmaður sat í á sínum tíma þá höfum við lækkað tryggingagjaldið. Sú ríkisstjórn hækkaði tryggingagjaldið. (Gripið fram í.) Við höfum lækkað tryggingagjaldið á þessu kjörtímabili. (KLM: Hvað ertu búinn að lækka það mikið?) Um 0,34% höfum við lækkað tryggingagjaldið frá og með áramótum og við höfum boðað að við munum halda áfram að gera það.

Það sem enginn vill ræða í þessari umræðu er hið augljósa, sem er það að við erum að taka út núna meiri launahækkanir en við berum. Þess vegna eru sveitarfélögin að stefna í hallarekstur. Þess vegna er ekki svigrúm í ríkisfjármálunum til að fara í auknar fjárfestingar eins og við svo mjög hefðum viljað getað gert (Gripið fram í.) eða bæta inn í einstaka stofnanir. Þess vegna er atvinnulífið að spyrja: Hvernig eigum við að rísa undir þeim miklu launahækkunum? Og nú fer auðvitað af stað leikurinn: Hver ber ábyrgð á þessu öllu saman? Hann er svona klassískur íslenskur stjórnmálaleikur, að finna gæjann sem ber ábyrgð á ruglinu. (Gripið fram í.) En svarið er að kerfið er brotið, (Forseti hringir.) svarið er að kerfið er ónýtt og SALEK-samkomulagið gengur út á það að finna nýja aðferðafræði til að komast út úr þessu. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Tryggingagjaldið mun halda áfram að lækka, hv. þingmaður. Það mun ekki hækka eins og í tíð síðustu ríkisstjórnar.