145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

framlagning stjórnarmála.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þessar áhyggjur hv. þingmanns eru eins og ég gat um áðan með öllu óþarfar en hins vegar hefur það ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með þingstörfum að undanförnu að það er ekki eins og þingmenn stjórnarandstöðunnar skorti mál til að tala um. Ég hugsa að það mundi nægja þeim að hafa bara eitt mál, þeir mundu samt tala fram á kvöld um það eina mál.

Það verður að segjast að það er auðvitað hluti af vandanum hvernig þessi stjórnarandstaða ekki hvað síst og raunar frekar en stjórnarandstöður liðinna áratuga … (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Nú hitti ég greinilega á viðkvæman punkt. Stjórnarandstaða þessa tíma tekur fyrir nánast hvaða mál sem er og gerir úr því málþóf og það frá fyrstu viku. Ég man ekki betur en frá fyrstu viku hafi menn valið sér einhver mál, sama hvort þau voru stór eða lítil, til að taka fyrir í málþófi. (Gripið fram í.)