145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

upphæð veiðigjalda.

[15:17]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Við upphaf síðasta kjörtímabils var myndaður starfshópur til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða og leggja fram tillögur til breytinga á þeim, sem hvað mest sátt mætti nást um. Þetta var fjölmennur hópur, skipaður fulltrúum allra þingflokka sem þá sátu á þingi, fulltrúum stéttarfélaga, sjómanna og landverkafólks, útgerðarmanna, atvinnurekenda og sveitarfélaga svo einhverjir séu til taldir. Ein af meginniðurstöðum þessa starfshóps var að það ætti að taka gjald af nýtingu auðlindarinnar, gjald sem væri tengt afkomu greinarinnar af auðlindanýtingunni. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn komast að slíkri niðurstöðu, a.m.k. tveir stórir hópar áratugina þar á undan, 10, 12 árum þar á undan, komust að svipaðri niðurstöðu.

Það var síðan á árinu 2012 fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 sem sett voru lög á Alþingi um veiðigjöld sem höfðu það að markmiði að veiðigjöldin tækju mið af afkomu sjávarútvegsins. Það fiskveiðiár voru veiðigjöldin 12,8 milljarðar. Þau hafa síðan lækkað jafnt og þétt frá því þau voru fyrst sett á, þ.e. fiskveiðiárið 2012/2013. Samtals nemur lækkunin um 9 milljörðum kr., þ.e. sem veiðigjöld hafa lækkað á yfirstandandi kjörtímabili. Það er ekki vegna þess að það gangi illa í sjávarútveginum, það gengur býsna vel í sjávarútveginum, reyndar aldrei gengið betur, sem betur fer, heldur vegna þess að þetta eru pólitískar ákvarðanir.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra núna þegar svo er komið að veiðigjöld nema um 7,5 milljörðum kr., sem eru tíundi hluti af arðseminni í greininni, hvort honum finnist það eðlileg og sanngjörn skipting á arðsemi (Forseti hringir.) af sjávarauðlindinni að einn tíundi renni til ríkisins, (Forseti hringir.) eiganda auðlindarinnar, en (Forseti hringir.) 90% verði eftir hjá greininni sjálfri.