145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

upphæð veiðigjalda.

[15:22]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Spurningin var mjög einföld og eðlileg. Ég bið hæstv. ráðherra að hlusta aftur. Finnst honum það eðlileg skipting á arðsemi sjávarútvegsins að ein króna af hverjum tíu renni til ríkisins, en níu verði eftir hjá greininni? Ég skal gefa honum svarmöguleika: a) já, b) nei, til að auðvelda honum svarið. (Gripið fram í.) Hitt er rangt hjá hæstv. ráðherra, að halda því fram að ég hafi sagt að 12,8 milljarðar á fyrsta fiskveiðiárinu væri einhver eðlileg tala. Það var fyrsta talan. (Gripið fram í.) Veiðigjöld væru hærri (Gripið fram í.) í dag ef við hefðum (Gripið fram í.) fylgt þeim … (Forseti hringir.) — Það er óþarfi að berja í bjölluna mín vegna, herra forseti, ég ræð alveg við þá einn. Veiðigjöld í dag væru mun hærri tala ef hægri stjórnin hefði ekki farið að hræra í lögunum og skera niður gjöldin.

Hvað er hægt að gera við 9 milljarða? Það er ríflega 1% lækkun á tryggingagjaldi sem dæmi — það er ríflega 1% lækkun á tryggingagjaldinu sem hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra kvartar hér yfir að geti ekki lækkað (Forseti hringir.) vegna þess að sé ekki svigrúm til þess. Það má gera ýmislegt (Forseti hringir.) fyrir 9 milljarða.