145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

samkeppni á bensínsölumarkaði.

[15:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil hafa þá nálgun í þessu máli eins og öðrum sambærilegum að hlusta eftir rökum og gagnrökum. Af hálfu þeirra sem um er verið að fjalla hér hafa komið ýmis gagnrök. Ég hef ekki gert það endanlega upp við mig hvort hér hafi ríkt eitthvert það ástand sem hafi sýnt einhvers konar brot gagnvart neytendum eða einhverja okurálagningu. Ég spyr mig hvort okurálagning geti verið tilfellið ef félögin skila engum rekstrarhagnaði, maður hlýtur að spyrja sig að því.

Hins vegar minntist ég á offjárfestingu og það er vissulega þannig að það eru of margar bensínstöðvar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það að dreifa olíu um landið er líka mjög kostnaðarsamt og ég held að Samkeppniseftirlitið hafi gert rétt með því að leyfa félögunum að starfa að einhverju leyti saman við slíkt. Ef það ætti að fara út í einhverja opinbera verðlagningu þá þyrftum við að fara í sameiginleg innkaup til landsins, sýnist mér, eða hvernig eiga menn sem hafa ólíkan innkaupakostnað að sitja uppi með eitt (Forseti hringir.) sameiginlegt opinbert verð? Það er mörgum spurningum ósvarað þegar þessu er slengt fram. Við þurfum áfram að fylgjast með þessum markaði, ég fagna því að skýrslan hafi komið út (Forseti hringir.) og við skulum endilega taka þessa umræðu með markvissari og málefnalegri hætti en að gera það í tveggja mínútna fyrirspurnatíma.