145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í gær barst mér svar við fyrirspurn minni um innsigli kjörkassa í kosningum. Þar fæ ég nokkur áhugaverð svör við spurningum mínum. Þar kemur fram að ráðuneytið lætur kjörstjórnum í té embættisinnsigli, stangir og borða. Kjörstjórnir eru svo með sérstakt lakk, garn og stimpla. Í svarinu er tiltekið, með leyfi forseta:

„Að mati ráðherra eiga framangreind embættisinnsigli að vera fullnægjandi til þeirra nota sem kveðið er á um í kosningalögum, enda sé vandað til innsiglunarinnar sjálfrar.“

Nú vil ég, með leyfi forseta, lesa úr athugasemdum umboðsmanna Pírata frá síðustu kosningum sem komu fram í kæru á framkvæmd alþingiskosninga 2013. Bjarki Sigursveinsson gerir athugasemdir:

„Innsigli á mörgum kjörkössum voru ómerkt […] Innsigli á nokkrum kössum voru léleg og lokuðu ekki raufinni til fulls.“

Björn Þór Jóhannsson gerir athugasemdir:

„… [hægt] var að opna kassa án þess að rjúfa innsigli […] Kassi var með rofnu innsigli. Aðeins var innsigli yfir rauf á um helmingi kassanna. Umboðsmönnum var ekki boðið að skoða innsigli á pokum sem kjörkassar komu í fyrr en seint var liðið á kvöldið og umboðsmenn voru farnir að gera athugasemdir við innsigli á kjörkössum. Lykill að kjörkassa var oft límdur á kassa […] Frá kjörstað, þar sem 10 umframatkvæði komu úr kjörkassa miðað við kjörskrá og ekki var innsigli yfir rauf á kjörkassa … “

Svavar Kjarval gerði athugasemdir:

„… einhver með aðgengi að límmiða í sömu stærð og lit hefði getað útbúið eins eða afar lík innsigli. […] Þegar innsiglin voru fjarlægð af kössunum voru engin ummerki að innsiglin hafi nokkurn tímann verið á þeim […] Öll notkun innsigla ætti að vera skráð og hvert þeirra þarf að hafa einkvæmt númer og merki sem er erfitt að herma eftir.“

Athugasemdirnar voru fleiri en þetta voru aðalatriðin hvað varðar þau vandamál sem umboðsmenn lentu í með innsigli kjörkassa.

Nú er það svo að lýðræðið getur bara verið jafn gott og kosningarnar. Umboð þessa Alþingis og þá sérstaklega ríkisstjórnarinnar er jafn gott og óbrotið innsigli, lokuð rauf og læstur kassi sem lykill fylgir ekki með. Ég er ekki sammála því mati ráðherra að (Forseti hringir.) framangreint embættisinnsigli sé fullnægjandi og það hefur ekki verið vandað neitt rosalega til þessarar innsiglunar.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna