145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Um daginn varð nokkur umræða bæði í fjölmiðlum og úr þessum ræðustól um það hvernig Ísland hagaði atkvæði sínu í kosningu um kjarnorkuvopn á alþjóðavettvangi. Þar var sérstaklega fjallað um tillögu þar sem Ísland greiddi atkvæði í undirnefnd gegn alþjóðlegri yfirlýsingu um bann við kjarnorkuvopnum. Sú yfirlýsing hefur raunar verið lögð fram í þinginu sem þingmál af þeirri sem hér talar og fleiri hv. þingmönnum en hefur enn sem komið er ekki komist á dagskrá.

Í gær var fundur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem greidd voru atkvæði um ýmsar tillögur. Þar var meðal annars samþykkt með 138 atkvæðum gegn 12 að setja á laggirnar hóp á vegum Sameinuðu þjóðanna sem vinna skuli að því að búa til lagaramma með það að markmiði að unnt verði að banna kjarnorkuvopn. Best hefði verið ef Ísland hefði treyst sér til þess að greiða atkvæði með þessari tillögu, en ég verð að viðurkenna að mér finnst þó betra en ekkert að Ísland var meðal þeirra ríkja sem sátu hjá.

Það er í rauninni afar fróðlegt að skoða og lesa sig í gegnum atkvæðagreiðslur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um afvopnunarmál. Þar er hægt að sjá að í flestum tilvikum greiðir Ísland atkvæði eins og þorri NATO-ríkja. Hvers vegna treysti Ísland sér ekki til þess að styðja kjarnorkufriðlýsingu Indlandshafs? Vilji Íslendingar í raun og veru standa við stóru orðin um að vera herlaus og friðelskandi þjóð þarf Alþingi að vera miklu duglegra að fylgjast með því hvernig Ísland greiðir atkvæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Við hér verðum að taka afstöðu og leggja línurnar um það hvernig Ísland á að haga sér.


Efnisorð er vísa í ræðuna