145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær þakkir sem viðbragðsaðilum hafa verið sendar úr þessum ræðustóli í dag til þeirra stofnana sem komu að undirbúningi komu óveðursins sem geisaði í gær og úrlausn þeirra verkefna sem óveðrið færði þeim. Það sem einkennir alla þá aðila er ósérhlífnin sem þeir sýna í öllu. Ekki eru það launin eða aðbúnaðurinn sem rekur þá áfram heldur áhuginn og þörfin á til að láta gott af sér leiða fyrir borgara.

Ég held að við verðum alltaf að vera dugleg að hugsa hvernig við á Alþingi getum aðstoðað þetta fólk og sýnt því svolítinn áhuga á því að aðstoða það við að sinna störfum sínum. Það fer mikil orka í þetta. Það er mikilvægt að orka manna nýtist í að leysa þau verkefni sem þeir gefa sig út fyrir að sinna en ekki í að berjast við kerfið. Þess vegna langar mig að minnast á einn hóp sem er kannski ekki oft í umræðunni. Það er svokölluð utanspítalaþjónusta, sjúkraflutningamennirnir okkar sem eru alltaf að fá aukin verkefni. Það hefur þróast þannig að heilbrigðisþjónustan á landsbyggðinni hefur verið að dragast saman með aukinni sérhæfingu í læknavísindum. Þá hefur komið aukin krafa á þá sem sinna utanspítalaþjónustunni. Einnig hefur þeim farið mikið fram í sínum málum og geta oft veitt betri þjónustu en starfsfólk sjúkrahúsanna. Það er hægt að samþætta þetta. Þarna þurfum við að huga að aðbúnaði, menntun og þjálfun. Það er hægt að auka þjónustu og öryggi borgara til muna án mikils fjárhagslegs kostnaðar. Með smá áhuga og vinnu með þessum aðilum getum við gert stórar og mikilvægar breytingar.


Efnisorð er vísa í ræðuna