145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Hér greiðum við atkvæði um viðbót til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Eins og komið hefur fram þá lá það fyrir við fjárlagagerð á síðasta ári að þarna þyrfti að koma til fé. Það er ekki bara svo að það snúist um smekksatriði heldur er það einfaldlega skýrt í fjárreiðulögum hvert sé hlutverk fjáraukalaga. Þetta er ekki hluti af þeim verkefnum sem fjáraukalög eiga að fela í sér og endurspeglar í raun fullkomin lausatök í ríkisfjármálum og er gott dæmi um það hversu lélegt utanumhald er á þessum málaflokki, bæði að því er varðar ríkisstjórnina en ekki síður hv. fjárlaganefnd sem getur farið mikinn, meiri hluti fjárlaganefndar, þegar það á við. En þegar svona lausatök eru annars vegar þá tala menn eins og þetta séu smámál. Hér erum við að tala um á níunda hundrað milljóna króna.