145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekkert að gerast í þessum málaflokki enn þá nema það er búið að setja á laggirnar enn eina nefndina. Það er verið að möndla við stefnumótun. Það er komið á þriðja ár þessarar ríkisstjórnar og það er ekkert sem heitið getur að gerast í málaflokknum. Það liggur engin stefna fyrir, engar hugmyndir hafa fæðst nema bæta við á aukafjáraukalögum eða henda peningum út í loftið.

Litlum aðilum hefur verið kennt um það víða um land að þeir séu ekki klárir með verkefni sín og þess vegna hafi ekki verið hægt að úthluta úr sjóðnum. Hvað má þá segja um ríkisstofnanirnar eða þá staði hjá ríkinu sjálfu sem hafa ekki hafið sín verkefni? Er það vegna þess að engin áætlun liggur fyrir? Hverjum er um að kenna? Er það ekki ríkisstjórninni að kenna, sem er með algert stefnuleysi í þessum málaflokki?

Enn og aftur er ekkert búið að útfæra, hvorki gagnvart sveitarfélögunum né öðrum, hvernig samfélagið eigi meðal annars að njóta styrks af skattheimtu gistináttagjalds. (Forseti hringir.) Það er ólíðandi að málaflokkurinn skuli (Forseti hringir.) alltaf að vera fjármagnaður eftir á.