145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Tvennt vekur athygli við þessa atkvæðagreiðslu. Enginn þingmaður stjórnarmeirihlutans skorast úr leik og enginn þeirra treystir sér hingað upp til að rökstyðja afstöðu stjórnarmeirihlutans. Af hverju á að beita lífeyrisþega misrétti gagnvart almennu launafólki í landinu? Af hverju eiga lífeyrisþegar, sem ekki geta samið um kjör sín, að búa við lakari stöðu en launafólk? Það væri kannski hægt að rökstyðja það ef hér væru erfiðleikatímar, en í tíð síðustu ríkisstjórnar voru lægstu bætur almannatrygginga aldrei skertar og árið 2011, þegar sérstakir láglaunasamningar voru gerðir rétt eins og nú, á miðju ári rétt eins og nú, í félagsráðherratíð Guðbjarts heitins Hannessonar, voru bætur almannatrygginga hækkaðar til samræmis við bætur kjarasamninga á almennum markaði á miðju ári 2011. (Forseti hringir.) Fordæmin eru ljós. Það er hægt að gera þetta. Það er rétt að gera þetta. Ég lýsi eftir einum stjórnarliða sem þorir að rökstyðja af hverju ekki á að gera þetta.