145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:59]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Formaður fjárlaganefndar sagði rétt áðan að með breytingartillögum meiri hlutans væri verið að bregðast við ófyrirséðum útgjöldum. Þessi liður snýst einmitt um það. Þennan lið er verið að hækka um 3,5 milljarða kr. þannig að hann fer í tæpa 10 milljarða kr. vegna ófyrirséðra útgjalda vegna kjarasamninga. Úr þessum lið eiga þessir tæpu 10 milljarðar svo að flæða til ríkisstofnana til að greiða afturvirka launahækkun. Hér er sem sagt verið að gera það fyrir alla aðra en aldraða og öryrkja sem við vorum að greiða atkvæði um áðan og breytingartillagan var felld með fimm atkvæða mun.

Virðulegi forseti. Ég vek líka athygli á því að þessar tillögur eru allar samþykktar af minni hluta þingmanna sem hér eru. Ég vil líka vekja athygli á því sem er ansi athyglisvert að aðeins eru tveir ráðherrar við atkvæðagreiðsluna. Þessi atkvæðagreiðsla er skýrt dæmi um meðferð meiri hlutans (Forseti hringir.) með því að hækka þessi útgjöld til allra annarra en aldraðra og öryrkja.