145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar fjárlagafrumvarpið 2015 var lagt fram voru ansi margir framsóknarþingmenn aumir út af hækkun matarskatts. Hvernig voru þeir keyptir til fylgis við þá hækkun? Með hækkun barnabóta meðal annars. (Gripið fram í.) Skerðingarhlutföllum barnabótanna var ekki breytt þannig að barnafjölskyldur hafa verið sviknar um þetta mótvægi og þar af leiðandi hafa þingmenn Framsóknarflokksins, sem voru svo auðkeyptir í síðustu fjárlögum, jafnframt verið sviknir. Þau taka því með glöðu geði og ætla nú að samþykkja þessa skerðingu á barnabótum.

Herra forseti. Þetta er skammarlegt. Ég legg til að meiri hlutinn sjái sóma sinn í því að koma með þessar 600 milljónir á milli (Gripið fram í.) umræðna í fjárlagaumræðunni, á milli 2. og 3. umr., og skila því (Forseti hringir.) til barnafjölskyldna sem hafa tekið á sig auknar byrðar vegna matarskatts. (Gripið fram í: … barnafjölskyldur.) (Gripið fram í.)