145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er enginn á móti því að hagur barnafjölskyldna vænkist og að kaupmáttur eða tekjur barnafólks í landinu aukist. En við erum hins vegar á móti því að sá kaupauki hverfi til baka í skerðingu vaxta- eða barnabóta og það er það sem hér gerist. (Gripið fram í.) Þegar menn færa ekki upp tekjutengingarmörkin í samræmi við þróun kaupgjalds, þá hverfur kaupauki þessa fólks til baka í formi skertra barnabóta og vaxtabóta. (Gripið fram í.) Það er þannig sem kerfið virkar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Þú ættir ekki að vera að tala um þessi mál nema þú hafir lágmarksskilning á því sem hér er á ferðinni. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Þetta er ákvörðun um að láta þær kjarabætur sem barnafólk hefur blessunarlega fengið á árinu hverfa til baka í minni vaxtabótum.