145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi hv. þingmaður, Oddný Harðardóttir hafði nú ekki miklar áhyggjur af þessum málum þegar hún var í ríkisstjórn á bilinu 2009–2013 heldur skar spítalann niður og sólundaði (Gripið fram í.) skattfé landsmanna m.a. í ESB-umsókn, (Gripið fram í.)stjórnarskrármál, og svo átti meira að segja að setja klyfjar á herðar þjóðarinnar með Icesave-samningunum svona til upprifjunar.

En mér er ljúft að svara spurningunni. Ég fór þar yfir í ræðu minni að aðalvandamál Landspítalans er fyrst og fremst það að þeir sem koma þarna þurfa oft á þjónustu heilsugæslunnar að halda. Verið er að bæta í heilsugæsluna og mér er sagt að hátt í þrjár deildir séu nú tepptar af fólki sem er fast inni á Landspítalanum en ætti að vera á öðrum stöðum. Nú þurfum við að fara í þær úrbætur að gera þá tvo hluti sem munu létta byrði af Landspítalanum. Og eins og ég fór yfir er enginn betur meðvitaður um akkúrat þessar mannfjöldaspár en meiri hluti fjárveitinganefndar undir stjórn hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og hefur hann beitt sér mjög í því.