145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar svarið.

Ég verð að segja að það breytir því ekki þegar hún talar um að verkefni hafi orðið út undan og sumir hafi getað sótt á fleiri staði en aðrir. Það sama á við í þessu. Hér er í raun áhugasvið þeirra sem sitja í fjárlaganefnd eða að þeir sem hafa aðgengi að fjárlaganefnd beri eitthvað úr býtum umfram aðra að mínu mati.

Ég spyr þingmanninn: Mér finnst meðal annars að þegar við forgangsröðum fjármunum og veltum fyrir okkur heimsóknum sveitarstjórnarfólks og annarra — hvað með málefni fatlaðs fólks? Hefur formaður fjárlaganefndar ekki áhyggjur? Sveitarfélögin hafa komið að máli við fjárlaganefnd og sagt að þau sjái sér ekki fært að reka málaflokkinn, styðja við fatlað fólk, vegna þess að þau beri of mikinn kostnað og íþyngjandi reglur hafa verið lagðar á í gegnum tíðina. Telur hún ekki að við hefðum átt að leggja meiri fjármuni í þann málaflokk fremur en að dreifa honum með þeim hætti sem — ég ætla ekki að segja að allir þeir 9 (Forseti hringir.) milljarðar sem fóru í breytingartillögurnar, en alla vega eitthvað af þeim hefðu frekar átt að fara í þann brýna málaflokk.