145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:01]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fór hér yfir ýmsa þætti og gerði að sérstöku umtalsefni tillögu um 280 millj. kr. tímabundna fjárheimild til að mæta kostnaði við rannsóknarverkefni í lyfjameðferð gegn lifrarbólgu C. Mig langar að spyrja aðeins nánar út í þetta. Er það rétt skilið hjá mér að þetta sé liður í að leysa mál sem kom upp í haust þegar konu var synjað um lyfjaniðurgreiðslu vegna lifrarbólgu C og þetta hafi verið leið ráðuneytisins til að leysa það mál? Ef þetta er það, þá stendur sú staðreynd eftir að verið er að miða fjárframlög til lyfjaniðurgreiðslu við fjölda sjúklinga en ekki ástand þeirra. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hún sammála því að þannig sé að málum staðið því að það verkleg er algerlega nýtt í okkar heilbrigðisþjónustu?