145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna var það staðfest, þetta voru allt of góðar fréttir, þessi lifrarbólgusamningur, til að hægt væri að tala um hann á jákvæðan hátt. Þetta hefur mig náttúrlega grunað vegna umræðunnar í samfélaginu því að það hefur hvergi borið á þessum samningi í fréttum og hversu góður hann er fyrir Íslendinga og þá sem hér búa og heilbrigðiskerfið og ríkið.

Hér er þingmaðurinn að gefa í skyn að stjórnvöld hafi á einhvern hátt haft afskipti af dómstólum í haust þegar Hæstiréttur dæmdi það að ríkið ætti ekki að koma að frekari bótum hjá þeim aðilum sem sóttu rétt sinn. Þessar samningaviðræður voru komnar af stað um mitt þetta ár, jafnvel á fyrri hluta þessa árs. Ekki var hægt að greina frá því fyrr en eftir að hæstaréttardómurinn féll. Þá voru allir pappírar tilbúnir og þá var undirritað en það var bara hending að þetta skyldi hafa raðast með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Stjórnvöldum er óheimilt að hafa áhrif á dómstóla.