145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:04]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er allt komið á tjá og tundur í röksemdafærslu hjá hv. þingmanni. Ég var alls ekki að gefa í skyn að stjórnvöld væru með neinum hætti að reyna að hafa áhrif á dómstóla. Það féll dómur í þessu máli og það var ljóst að konan átti ekki rétt á því að fá lyfjaniðurgreiðslu samkvæmt þeim dómi. En málið var — vill formaður fjárlaganefndar kannski hlusta á fyrirspurnina en ekki spjalla meðan ég ber hana fram.

Málið var leyst á þann hátt að kalla lyfjafyrirtækið til aðstoðar til að leysa vanda sem var orðinn erfitt fjölmiðlamál fyrir ríkisstjórnina, þetta mál með lifrarbólgu C. Ég spurði hv. formann fjárlaganefndar hvort hún teldi ásættanlegt að skilja svona við málefni annarra þeirra sjúklinga sem þurfa á lyfjaniðurgreiðslu að halda en þurfa, samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisráðuneytisins og ráðherra, að sæta fjöldatakmörkun við ákvörðun lyfjagreiðslunefndar ef farið er að lögum, sem maður skyldi ætla. Vill þingmaðurinn vera svo elskulegur að svara mér því hvort hún telji það ásættanlegt.