145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti nú bara eitt andsvar við þingmann hér í gættinni og var að hlusta á hv. þingmann í ræðu á sama tíma. Það er hægt að gera tvennt í einu.

Þessi ríkisstjórn ber hag landsmanna fyrir brjósti og hefur forgangsraðað í heilbrigðismálum eins og ég hef margfarið yfir. Hér er líklega verið að vísa í þau lyf sem hv. þm. Árni Páll Árnason sakaði mig um að væru ekki til staðar og einhverjir Íslendinga væru að verða blindir af því að formaður fjárlaganefndar væri svo vondur að vilja ekki setja fjármagn í S-merktu lyfin. Það er nákvæmlega þetta sem verið er að gera með þessari tillögu um 280 millj. kr. hækkun í S-merktu lyfin og Lyfjastofnun. Á sínum tíma var gengið þannig að þessar greiðslur í frumvarpinu lækkuðu örlítið og hér er verið að bæta úr nákvæmlega eftir áætlun sem liggur fyrir um þörf á lyfjum á árinu 2016. Svo einfalt er það og því ber að fagna að það er svigrúm til að setja meira fé í lyfin.