145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir ræðuna. Því miður er þingmaður enn á braut vænisýki og dylgna sem voru stundaðar á síðasta kjörtímabili og fer hér fram eins og annar þingmaður hér í dag og segir að þingmenn séu spilltir og hygli einhverjum hluta landsmanna með því að einhverjir hafi betri aðgang að fjárlaganefnd en aðrir. Ég hafna því. Þetta er ekki boðlegt Alþingi Íslendinga árið 2015.

Í nefndarálitinu er til dæmis hvatt til þess að rannsókn á einkavæðingu bankanna verði flýtt. Algerlega er ég til í það enda liggur fyrir þingsályktunartillaga frá mér um að við tökum líka rannsóknina á einkavæðingu bankanna hina síðari með í þá rannsókn og farið verði af fullum krafti í það. Til er ég, virðulegi forseti, ekki skal standa á mér. Þar að auki liggur eitt mál á nefndasviði sem kallað hefur verið Víglundarmálið, sem sýnir allt það sem gekk á í hinu gegnsæja samfélagi þegar Samfylkingin og Vinstri grænir voru við völd.

Virðulegi forseti. Það er hræðilegt að þurfa að hlusta á þetta, að þessir þingmenn skuli ekki koma sér upp úr því sem gerðist hér árið 2008. En ef refsigleðin á að vera við völd áfram er ég tilbúin í það.

Auk þess óska ég eftir því að hv. þingmaður láti uppprenta með réttum upplýsingum það nefndarálit sem hún las upp úr því að ég ætla ekki að gera þingmanninum það að birta viljandi ósannar tölur í þessu nefndaráliti. Vil ég því gefa henni færi á að svara því, þeim orðum sem standa hér að stjórnarmeirihlutinn hafi lækkað útvarpsgjaldið úr 19.400 kr. í 17.800 kr. árið 2014 (Forseti hringir.) þegar það er ekki rétt og farið er yfir það í nefndaráliti meiri hlutans. Ég vil biðja þingmanninn um að útskýra þessar upplýsingar.