145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns sem var um margt sérkennileg. Ég nenni ekki að leiðrétta það allt saman hér í tveggja mínútna andsvari. Hv. þingmaður var í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Sú ríkisstjórn var meðal annars talin stunda kjördæmapot út af mjög háum greiðslum í tengslum við atvinnuuppbyggingu á Bakka og ýmislegt annað. En ég ætla ekki að ræða það hér.

Ég ætla að ræða aðeins heilbrigðismálin. Hv. þingmaður benti réttilega á það sem við erum búin að vita lengi að aldurssamsetning þjóðarinnar er breytt. Það kallar meðal annars á aukið álag bæði á heilbrigðisþjónustuna og meðal annars núna vegna þess að við höfum ekki gert nægilegar ráðstafanir á Landspítalanum.

Úr því að hv. þingmaður Samfylkingarinnar er meðvitaður um þetta, af hverju var þá fækkað um 100 hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörfin er mest? Það er þess vegna sem þessi mikli vandi kom enn harðar fram á Landspítalanum. Þetta er spurning númer eitt.

Spurning númer tvö: Er hv. þingmaður á móti samningum við sérfræðilækna? Og þá er það næsta spurning: Af hverju samdi síðasta ríkisstjórn við tannlækna sem eru sérfræðilæknar?

Svo er það spurning númer þrjú: Ég ætla að leyfa mér, af því að enn og aftur er farið rangt með þegar talað er um heilbrigðismálin, virðulegi forseti, að lesa úr grein eftir Odd Steinarsson, sem er sérfræðingur í heimilislækningum. Hann hefur hvað eftir annað reynt að leiðrétta þær rangfærslur sem hér eru hafðar uppi um einkarekna heilsugæslu. Hann fer nákvæmlega yfir það að heimsóknartíðni lágtekjufólks í heilsugæsluna hækkaði í kjölfar slíkra breytinga sem voru gerðar í Svíþjóð.

Ég spyr hv. þingmann. Er Samfylkingin á móti þeim einkareknu heimilislæknum sem hér eru, t.d. í Salahverfi sem er byggt á nákvæmlega sömu hugmyndum og hefur verið rekin hér í áratugi með mjög góðum árangri? Vill Samfylkingin loka í Salahverfinu? Vill Samfylkingin loka í Lágmúlanum? Vill Samfylkingin koma í veg fyrir að sjálfstæðir heimilislæknar geti starfað?

Hv. þingmaður verður að svara þessum spurningum.