145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki náð í þessu stutta andsvari mínu að lesa upp úr þessari grein, ég mun gera það í ræðu hér á eftir. Ég er með skýrslu ríkisendurskoðunarinnar sænsku á heimasíðunni minni, gudlaugurthor.is, ásamt leiðréttingunum vegna þess að það er orðinn taktur hjá íslenskum vinstri mönnum að segja bara hálfan sannleikann. Ég hvet ykkur — þessi grein er frá 3. desember, þessi maður, sem er sérfræðingur, er hvað eftir annað búinn að skrifa um þessa hluti — til að kynna ykkur þetta.

Hv. þingmaður sagði áðan og lét að því liggja að þetta þýddi að fólk þyrfti að borga meira fyrir að fara til heimilislæknis. Nú var það þannig að Salahverfis-heilsugæslan var boðin út. Borga menn meira þar? Nei. Það er ekki það sem gerðist í Svíþjóð en það er alveg sjálfstæð ákvörðun um það.

Hér er verið að væna stjórnvöld um mjög óeðlilega hluti og verið að vísa í gögn án þess að koma með alla söguna. Að ætla (Forseti hringir.) mönnum það, þegar þeir fara í útboð og nýta sér einkarekstur, sem hefur verið gert um áratugaskeið á Íslandi, að þeir séu að fara í grundvallarbreytingu á heilbrigðisþjónustu á Íslandi eru hrein og klár ósannindi.