145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég sagði hér áðan var að allt þetta umhverfi, eins og það liggur fyrir, og þetta tal um aukinn einkarekstur á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu, vekur upp tortryggni. (Gripið fram í.) Þá velta menn því fyrir sér hvað þarna eigi að vera á ferðinni. — Ekki ef menn kynna sér málin betur, segir hv. þingmaður. Tökum umræðuna hér í þingsal og förum yfir málin.

Hv. þingmaður talar af miklum eldmóði fyrir þessum hlutum og talar um kosti einkarekinna heilsugæslustöðva. Hvers vegna talar hv. þingmaður ekki af eins miklum eldmóði fyrir því að Landspítalinn fái bætta magnaukningu? Af hverju gerir hv. þingmaður þá kröfu á Landspítalann að skera niður um milljarð vegna þess að ekki er hægt að bæta opinbera kerfinu upp fjölgun sjúklinga? En það er sjálfsagt að gera það við einkareknu stöðvarnar og hjá sérgreinalæknum.