145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er dálítið erfitt að koma í pontu eftir svona umræður. Voðalega er fólk reitt. Ég hef nokkrar athugasemdir. Það er eitt varðandi heilbrigðiskerfið sem við þurfum að átta okkur á sem imprað var á hér áðan, aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast. Hið rétta er, best að nota rétt orð um það, er að aldurssamsetning þjóðarinnar er að ná eðlilegri aldursdreifingu. Aldurssamsetning þjóðarinnar hingað til er búin að vera frekar óeðlileg. Það hefur verið mun lægra hlutfall aldraðs fólks en yngra fólks einmitt út af barnasprengjunni svokölluðu fyrir nokkrum áratugum síðan. Síðan þá hefur mannfjöldaaukningin verið eðlileg. Við þurfum því að búa til kerfi sem virkar fyrir eðlilega aldursdreifingu þjóðarinnar og þangað erum við að stefna, kannski hraðar en við getum búið til fjárlög fyrir.

Ég hnaut um það sem sagt var um útvarpsgjaldið. Ég sé sömu tölur í áliti minni hlutans og í nefndaráliti meiri hlutans, þannig að ég veit ekki af hverju verið var að rífast svona rosalega mikið um það.

Það sem ég ætlaði hins vegar að spyrja um var sóknaráætlunin. Sóknaráætlunin gerir ráð fyrir því að ríkið borgi rosalega mikið til sveitarfélaganna til ýmissa verkefna. Af hverju byggjum við ekki frekar upp sjálfstæði sveitarfélaganna til þess að vinna eigin verkefni betur, í staðinn fyrir að við tökum skatt frá þeim og deilum síðan út til þeirra aftur? Af hverju geta þau ekki nýtt þær tekjur sem verða til nær þeim til þess að vinna þessi sóknarverkefni til styrkingar byggðar?