145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Hugmyndin með sóknaráætlun landshluta er einmitt sú að landshlutarnir taki með beinum hætti þátt í fjárlagagerðinni. Við tökum frá pening sem munar um sem landshlutarnir forgangsraða sérstaklega. Það er hugmyndin. En auðvitað eru landshlutarnir misvel stæðir. Það er því eðlilegt að í staðinn fyrir að ríki segist ætla að veita fé í þetta og hitt séum við með ákveðna púllíu sem landshlutarnir geta sjálfir forgangsraðað og komið þannig með beinum hætti inn í fjárlagagerðina á fyrri stigum. Það er hugmyndin.

Við í minni hlutanum erum með tillögu um að bæta 400 millj. kr. í sóknaráætlun. Ef vel ætti að vera ættum við að vera með 1,5 milljarða þarna inni. Það er nokkuð sem við ættum að stefna að að gera. Á síðasta kjörtímabili fór fram mjög mikil vinna. Ég tók þátt í henni í mínu kjördæmi þar sem fólk úr kjördæmunum, úr öllum stéttum og af öllum stærðum og gerðum kom saman til að greina stöðuna, hvar væri þörfin mest fyrir að byggja upp og hvernig hægt væri að haga hlutunum til að búsetan væri sem vænlegust í landshlutanum. (Forseti hringir.) Þarna komu fram mörg verkefni sem enn eru ófjármögnuð. Við þurfum að halda áfram á þeirri braut. Þegar þessi ríkisstjórn tók við henti hún allri sóknaráætluninni í burtu. Allri. Við gátum grenjað inn hér 100 millj. kr. til að halda áfram þessu starfi sem sveitarstjórnarmenn voru ánægðir með út um allt land, alveg sama í hvaða flokki þeir eru.