145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ræða kom ekki á óvart. Hv. þingmaður sér helst dauða og djöful og að hér sé allt svart fram undan; sem er ekki, eins og landsmenn vita. Ég bendi þingmanni jafnframt á það, eins og hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, að skoða töflu í nefndaráliti meiri hlutans þar sem fjallað er um málefni RÚV. Það var þessi ríkisstjórn sem hækkaði útvarpsgjaldið til RÚV en lækkaði það ekki. Það var fyrri ríkisstjórn sem ákvað að það yrði 16.400 kr. árið 2014. Þessi ríkisstjórn hækkaði það upp í 19.400 kr. og síðan niður í 17.800 kr.

Ég vil spyrja þingmanninn hvers vegna minni hlutinn heldur sífellt fram rangfærslum í málefnum RÚV. Út af hverju er ekki hægt að segja sannleikann úr þessum ræðustóli? Hvers vegna er það lífsins ómögulegt? Er þetta til þess að villa um fyrir landsmönnum? Eða liggur eitthvað annað þarna að baki?