145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Varðandi tryggingagjaldið hefur verið kallað eftir því að það lækki enn frekar. Meðal annars hefur verið talað um að af því að atvinnuleysi hefur minnkað sé tækifæri til að lækka þann hluta þess enn frekar.

Varðandi fjármögnun spítalans. Það eru auðvitað bara skiptar skoðanir á því hvort sú tillaga, sem Vinstri græn hafa lagt hér fram og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er fyrsti flutningsmaður að, er rétt aðferð eða ekki. Við höfum talið að það sé einföld leið til að gera það og mjög hreinlegt að vera með skatt markaðan til þessa verkefnis. Ég held að það sé fyrst og fremst pólitískur skoðanaágreiningur um hvort hægt er að gera það eða ekki. Auðvitað er hægt að fara margar aðrar leiðir.

Varðandi stafrænu íslenskuna er það mjög mikilvægt og það mál fær í rauninni allt of litla athygli. Það eru alltaf einhver (Forseti hringir.) tiltekin málefni sem taka allt plássið, en þetta er mjög mikilvægt, til dæmis að samtal okkar hér væri tekið strax upp og hljóðritað í staðinn fyrir að þurfa að láta skrifa það upp.