145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:00]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér stærsta mál vetrarins væntanlega sem eru fjárlögin og ég hef eitt og annað um þau að segja. Það sem vekur kannski fyrst athygli er að verið er að auka útgjöld töluvert og það kemur auðvitað til af því að kjarasamningar hafa verið gerðir á árinu sem hækka útgjöld mikið. En í rauninni eru ekki gerðar teljandi aðhaldskröfur og ekkert í líkingu við það sem var í frumvarpinu fyrir árið 2014.

Það eru gerðar töluvert margar breytingartillögur af hálfu meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar og þegar upp er staðið er talið að afgangurinn verði rétt tæpir 11 milljarðar sem er mjög lítið mundi ég segja. Ég geng þó út frá því að meiri hlutinn telji að arður af Landsbankanum verði hærri en gert er ráð fyrir þannig að það sé borð fyrir báru. En það má spyrja hvort ekki sé tækifæri til þess að vera með aðeins myndarlegri afgang af fjárlögum og ganga hraðar í að greiða niður skuldir ríkisins.

Það sem vekur athygli og hefur vakið athygli mína í fjárlagavinnunni, þ.e. aðkomu nefndarinnar að henni og kannski minni hlutans sérstaklega og hvernig þetta lítur út, er að mér finnst vinnubrögðin ekki alveg nógu góð. Fjárlagafrumvarpið er fyrsta mál sem lagt er fram að hausti og það er eins og það sé varla komið úr prentsmiðjunni þegar menn eru farnir að vinna breytingar á því. Það er ekki algengt að frumvörp komi inn í þingið og ráðherra sem flytur frumvarpið geri sjálfur miklar breytingar á því. Yfirleitt er það í meðförum þingsins sem breytingartillögurnar verða til. Mér finnst þetta gefa til kynna að stefnan sé ekki nógu skýr. Menn eru greinilega ekki búnir að ákveða í júlí hversu mikið fjármagn þeir ætla að setja í löggæslu eða heilbrigðismál eða hvað það nú er. Ég velti fyrir mér hvernig við ætlum að fara að því að vinna samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál ef við getum ekki verið með betri stefnumótun en þetta því þar ætlum við að hugsa þrjú ár fram í tímann og fimm ár fram í tímann.

Þetta eru mér vonbrigði og mér fannst vinnan ekki betri núna en hún var við fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Það gekk ýmislegt á en maður hafði skilning á því vegna þess að ný ríkisstjórn þarf kannski að fá tíma til að átta sig. Þetta gekk aðeins betur í fyrra en mér fannst þetta alls ekki gott núna. Við biðum síðan mjög lengi eftir breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar. Ég vil reyndar þakka fyrir það að fá breytingartillögur ríkisstjórnarinnar sér og breytingartillögur meiri hlutans sér. Mér finnst það skipta máli að geta séð hvaðan hlutirnir koma. En við fengum ekki breytingartillögur meiri hlutans fyrr en á laugardaginn og það var áskorun, ég skal viðurkenna það, að klára nefndarálit fyrir daginn í dag. Ég hefði þegið aðeins meiri tíma en svona er þetta. (Gripið fram í.) Ég ímynda mér að maður þurfi að bæta við nefndarálitið við 3. umr. því sem maður hefur einfaldlega gleymt vegna þess að tíminn hljóp frá manni.

Mér finnst mjög mikilvægt að við reynum einhvern veginn að bæta þessi vinnubrögð og ég er nú eiginlega alveg viss um að meiri hlutinn er sammála mér í því. Þetta er alls ekki nógu gott.

Ég geri svolítið úr því máli í nefndaráliti mínu sem snertir lífeyrissjóði ríkisins. Við stöndum vel að vígi miðað við aðrar þjóðir og það er gott en það er samt áhyggjuefni hversu miklar skuldbindingar ríkissjóðs eru. Rétt fyrir aldamótin árið 1999 samdi fjármálaráðherra og stjórnir LSR og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga um fyrirframgreiðslur ríkissjóðs upp í lífeyrisskuldbindingar og uppsafnaðar greiðslur ríkissjóðs vegna samkomulagsins námu tæpum 232 milljörðum með áunnum vöxtum í árslok 2014, en voru 205 milljarðar í ársbyrjun. Ef þær innborganir hefðu ekki komið til þá hefðu eignir B-deildar LSR verið uppurnar árið 2016 og árið 2018 hjá Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. Þá hefðu allar greiðslur sjóðanna þurft að koma úr ríkissjóði eftir það. Það var því gott að byrjað var að greiða inn en þessar aukagreiðslur fresta stöðunni til ársins 2030. Þannig að í staðinn fyrir að byrja að greiða þetta á næsta ári þá þurfum við að byrja að greiða árið 2030 vegna þess að þá munu sjóðirnir tæmast og ríkissjóður er náttúrulega bakábyrgðaraðili. Hann þyrfti þá að greiða 6 milljarða á ári frá árinu 2030.

Það er ekki endilega skemmtilegt að þurfa að setja fjármagn í þetta en það er hins vegar mjög óábyrgt ef við ætlum að senda þennan reikning endalaust inn í framtíðina og láta börnin okkar borga því að í raun er þetta þjónusta sem við njótum í dag og við verðum bara að sætta okkur við að við þurfum að greiða þessi gjöld af starfsmönnum hins opinbera. Við þessu þarf að bregðast og ég veit að það er skilningur á því meðal allra flokka.

Inn í lífeyrisskuldbindingarnar vantar yfirleitt skuldbindingar A-deildarinnar vegna þess að fjármálaráðuneytið færir þær ekki til bókar. En það er auðvitað þannig líka að ríkissjóður ber fulla ábyrgð á þeim þegar þar að kemur. A-deildin er orðin neikvæð, í lok árs 2014 var hún neikvæð um 9,6% af heildarskuldbindingum. Í nefndarálitinu er tafla yfir þessar lífeyrisskuldbindingar.

Það er þó jákvætt að unnið hefur verið að endurskoðaðri framtíðarskipan lífeyrismála á íslenskum vinnumarkaði og hugmyndin er sú að það verði eitt samræmt lífeyriskerfi í gildi bæði á almennum og opinberum markaði. Ég er mjög fylgjandi því að lífeyrisréttindi séu sambærileg fyrir fólk óháð því hvort það vinni hjá hinu opinbera eða á almennum markaði. Það þarf líka að fara í aðgerðir. Þjóðin er að eldast og hækka þarf lífeyristökualdur og það er auðvitað gert í áföngum og tekur langan tíma þannig að brýnt er að byrja á því sem fyrst.

Síðan höfum við verið að skoða það í nefndinni sem hefur vakið athygli okkar að starfsmenn sumra félagasamtaka greiða í opinbera lífeyrissjóði og ekki er hægt að sjá að það sé nein regla á því hver fær að greiða þar inn og hver ekki. Það vekur upp spurningar um jafnræði.

Varðandi einstaka liði í frumvarpinu þá verð ég að minnast á Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og hversu ótrúlega illa sitjandi stjórnvöldum hefur gengið að ráða við þennan fjárlagalið, númer 04-555. Frá því að ný ríkisstjórn tók til við að semja fjárlög árið 2013 hefur þessi liður alltaf verið vanáætlaður og stjórnvöld hafa ítrekað óskað eftir meiri fjárframlögum á fjáraukalögum hvers árs. Síðast í dag vorum við að ræða þetta í atkvæðagreiðslu um fjáraukann. Eins og bent var á í umræðunni eiga fjáraukalög að tryggja fjármagn vegna óvæntra og ófyrirséðra atburða en eru ekki til að fjármagna verkefni sem stjórnvöld vanáætla á fjárlögum.

Ef ég rek aðeins söguna þá var í fjárlögum fyrir árið 2015 einungis gert ráð fyrir tæpum 146 millj. kr. í framkvæmdasjóðinn og það gagnrýndi minni hlutinn. Það liðu ekki margir mánuðir frá því að fjárlagafrumvarpið var samþykkt að ríkisstjórnin tilkynnti að setja þyrfti 850 millj. kr. í sjóðinn og það er sú upphæð sem við vorum að samþykkja í dag, eða ekki ég, en Alþingi samþykkti í dag í fjáraukalögum.

Maður hefði því haldið að menn væru búnir að uppgötva að það þyrfti að setja peninga í þennan sjóð, að það skipti máli fyrir uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. En í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir tæpum 150 millj. kr. Sem betur fer var sú upphæð hækkuð fyrir 2. umr., reyndar fyrst upp í tæplega 750 millj. kr. en svo lækkuð niður í 490 millj. kr. fyrir utan hækkunina á gistináttagjaldinu. Maður getur því fagnað því í raun að stjórnvöld hafi séð að sér og séu loksins núna að setja fjármagn sem dugar og við munum væntanlega ekki sjá þennan lið í fjáraukalögum næsta árs.

Við höfum verið að ræða líka að úthlutunarreglum sjóðsins verði að breyta þannig að ekki sé gerð krafa um 50% mótframlag frá sveitarfélögum, oftast er um að ræða sveitarfélög, vegna þess að ef framkvæmdirnar eru viðamiklar þá eru 50% einfaldlega of hátt hlutfall. Ég veit að það er skilningur á þessu en ég veit ekki hvort búið sé að breyta þessu. Mjög mikilvægt er að ef ekki er búið að breyta því nú þegar verði það gert sem fyrst. Við höfum rætt þetta við ráðuneytið og gott ef ekki ráðherra líka.

Sóknaráætlun landshluta var verkefni sem ný ríkisstjórn skar niður um leið og hún komst til valda. Ég held að menn hafi hlaupið á sig. Oft vill það vera þannig að menn breyta því sem fyrri ríkisstjórn gerði af því að þeir áttu ekki sjálfir ekki hugmyndina eða ég veit ekki hvers vegna. Það var áhugavert að fara í kjördæmaviku eftir að fjárlögin fyrir 2014 voru komin fram því það kom fram, þvert á flokka í öllum sveitarfélögum, að menn voru mjög ósáttir við að sóknaráætlun landshluta hefði verið skorin niður. Þetta er verklag sem miðar að því að færa valdið til heimamanna, færa fjárveitinguna heim í hérað, þvingar menn líka til þess að setjast niður og forgangsraða og beina fjármunum í ákveðin verkefni sem er af hinu góða. Ég er hissa á því að ríkisstjórnin skuli ekki setja miklu meiri pening í þetta og láta landshlutasamtökin og fulltrúa þar taka ákvörðun um hvernig verkefnum er úthlutað.

Fjárveitingar til áætlunarinnar voru 400 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2013. Ríkisstjórnin nýja skar framlagið niður í 15 millj. kr. í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2014, hækkaði það svo upp í 100 og þá skildi maður það þannig að menn ætluðu að halda sjó og bæta svo í á næsta ári, en aftur var lögð fram tillaga um 15 millj. kr. framlag í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015. Það var svo hækkað í 100 millj. kr. við 2. umr. Í frumvarpinu núna eru lagðar til 145 millj. kr. og svo kom breytingartillaga um 35 millj. kr. sem snýr að menningarsamningum við sveitarfélög. Það er jákvætt því það hallar verulega á fjárframlög til menningarstarfs á landsbyggðinni eins og ég hef m.a. rætt við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í þingsal. Það var gott en ég kalla eftir því að ríkisstjórnin skoði ofan í kjölinn hvort sóknaráætlun landshluta og það verklag sé ekki góð leið til að beina fjármagni á rétta staði í staðinn fyrir að koma með svona breytingartillöguplagg eins og við fáum hér þar sem meiri hlutinn, örfáar manneskjur, er að taka ákvarðanir um alls kyns verkefni án þess að hafa kannski ekki til þess, ja, hvað á ég að segja, þar til bærar upplýsingar.

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu háskóla og framhaldsskóla. Útgjöld á hvern nemanda á báðum þessum skólastigum eru undir meðaltali OECD-ríkjanna og mun lægri en annars staðar á Norðurlöndum. Á sama tíma rekum við grunnskólakerfi sem er dýrara en að meðaltali í OECD-löndunum. Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu um stöðu framhaldsskólanna árið 2014 og þar var m.a. bent á að endurskoða yrði reiknilíkan framhaldsskólanna. Það væri of flókið og ógagnsætt og nýttist ekki sem raunhæft stjórntæki. Það var síðast endurskoðað árið 2003. Tilmælum var líka beint til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að launastika reiknilíkansins tæki mið af raunverulegum launakostnaði skólanna þar sem laun eru auðvitað langstærsti kostnaðarliðurinn. Úr þessu þarf að bæta hið fyrsta því að reiknilíkanið er leið til þess reyna að útdeila takmörkuðum fjármunum með sanngjörnum hætti og þá eru tekin inn í það alls kyns atriði eins og stærð skólanna, aldur kennara ætti að koma þar og fleira.

Það sem gerðist í fjárlagafrumvarpinu 2015 var að framlag á hvern nemanda var hækkað en að sama skapi var nemendaígildum fækkað um 916. Framlögin voru hækkuð en nemendaígildum fækkað. Talið var að vegna minni árganga mundi nemendum í framhaldsskólum fækka og síðan var, eins og við vitum auðvitað öll, nemendum í bóknámi 25 ára og eldri gert að klára stúdentspróf með öðrum leiðum en í framhaldsskóla. Það sem var mjög gagnrýnivert að okkur fannst var að ekki lá fyrir nein greining á þeim áhrifum sem þetta kynni að hafa í för með sér. Auðvitað mega framhaldsskólarnir taka við nemendunum ef þeir vilja en tölur sýna að mun færri nemendur á þessum aldri fara í nám í dag. Þar sem staða framhaldsskólanna er mjög þröng þá hafa þeir ekki tök á að fá of marga nemendur og þá eru það að sjálfsögðu þessir 25 ára og eldri sem fá síðast inn. Það vantaði líka að sýnt væri fram á að þessu fylgdi einhver sparnaður. Mér finnst verulega gagnrýnivert að farið sé í svona aðgerðir án þess að fyrir liggi bæði fjárhagsleg og félagsleg greining.

Í fjárlagafrumvarpinu segir að verið sé að móta heildstæða stefnu fyrir háskóla- og vísindastarfsemi til næstu fimm ára sem verði lögð til grundvallar þegar ákvarðanir sem snúa að háskólastarfinu verða teknar. Það er gott að slík vinna sé í gangi og ekki seinna vænna því háskólastarf á Íslandi hefur goldið fyrir skort á stefnu og að því er virðist tilviljanakenndar ákvarðanir oft á tíðum.

Menntamálaráðherra skipaði nefnd í febrúar síðastliðinn sem átti að skoða ávinning samstarfs háskólanna þriggja í Norðvesturkjördæmi. Sú nefnd mun hafa skilað niðurstöðum, ég hef ekki fundið þær enn þá á netinu en las einhvers staðar að niðurstöðurnar lægju fyrir. Það sem mér finnst kannski gagnrýnivert er að verið sé að skipa nefndir um einstaka skóla eftir því hvernig þeir skipast í kjördæmi á sama tíma og verið er að vinna stefnumótun fyrir alla háskóla landsins. Við vitum líka að staða háskólanna er mjög misjöfn. Það hefur gengið erfiðlega að finna lausn á vanda þeirra skóla sem hafa glímt við mikinn rekstrarvanda og eru jafnvel með mikinn uppsafnaðan halla eins og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri en líka Háskólinn á Hólum sem er þó ekki eins illa staddur. Það er mjög mikilvægt að úr þeim málum verði leyst. Þetta er að verða sagan endalausa og ég nenni eiginlega ekki að fá enn eina skýrslu Ríkisendurskoðunar um þessa skóla, þetta er að verða ágætt. Annaðhvort verður að breyta starfseminni þannig að hún rúmist innan fjárlaga eða menn bæta í. Það er bara þetta tvennt sem er í boði.

Mér finnst líka mikilvægt að þau fjárframlög sem háskólarnir fá endurspegli áherslur stjórnvalda á hverjum tíma og tryggi að háskólarnir geti sinnt skyldum sínum því eins og staðan er í dag erum við með endalausar reddingar bæði í fjáraukalögum og með breytingartillögum við fjárlagafrumvarpið og mér finnst það ekki boðleg vinnubrögð. Háskólar eins og allar stofnanir ríkisins verða að geta skipulagt sig fram í tímann og mótað stefnu en með þeim vinnubrögðum sem við ástundum er þeim gert afar erfitt fyrir.

Ástand vega er víða mjög slæmt eins og við höfum orðið vör við. Það hefur verið mikill niðurskurður undanfarin ár og vegakerfið líður fyrir það. En á sama tíma eykst umferð, ekki síst vegna fjölgunar erlendra ferðamanna. Malarvegir eru sums staðar allt að því ófærir. Ástand hafna er líka áhyggjuefni og við heyrðum það þegar fulltrúar sveitarfélaganna komu á fund fjárlaganefndar að öll sveitarfélög, sjávarplássin, höfðu eitthvað að segja um ástand hafna og kvörtuðu yfir því. Það sama á við um flugvelli landsins. Í breytingartillögunum er aukið fjármagn sett í viðhald hafna og flugvalla og það er ástæða til að fagna því. En fjárlög til vegaframkvæmda þyrftu að vera mun hærri, bæði vegna nýframkvæmda en einnig til viðhalds. Síðan er það liðurinn vetrarþjónusta sem virðist ítrekað rekinn með halla og erfitt að áætla í þann lið. Það er í raun ekki gert ráð fyrir auknum fjárheimildum sem neinu nemur í vegasamgöngur þrátt fyrir að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar komi fram að unnið verði að samgöngubótum með áherslu á tengingu byggða. Settar eru 235 millj. kr. til vegagerðar í dreifðum byggðum í breytingartillögum og það dugar skammt. Þetta eru í rauninni ekki miklir peningar í vegamálum sem er auðvitað dýr málaflokkur. Það er því áhyggjuefni hve lítið fé er sett í vegasamgöngur núna þegar betur árar og auðvitað verður líka að gagnrýna það að ný samgönguáætlun skuli ekki hafa litið dagsins ljós.

Ég vil fagna því að settir hafi verið peningar í ljósleiðaravæðinguna. Ég var búin að skrifa langan kafla um mikilvægi þess að ljósleiðaravæða landið. (Gripið fram í: Hrósaðu …) Já, þetta var bara vel gert. Þetta er ekki verkefni sem hægt er að setja í einhverjar 100 milljónir á ári. Það verður bara að klára þetta, þetta snýr að atvinnuuppbyggingu úti á landi, ferðaþjónustu, þetta er öryggisatriði. Þetta eru 5 milljarðar þegar allt er talið, en það má flokka þetta verkefni liggur við eins og samgöngur. Þetta er bara lífsnauðsynlegt (Gripið fram í.) og gott að settir séu meiri peningar í verkefnið og vonandi verður því haldið áfram á fjárlögum næsta árs.

Fæðingarorlofið. Það verður að segjast að það eru vonbrigði að ekki sé gert ráð fyrir auknu fjármagni í Fæðingarorlofssjóð nema vegna hagrænna áhrifa. Sjóðurinn var skorinn niður eftir hrun og var sett þak á hámarksorlof. Samkvæmt heimildum frá Vinnumálastofnun urðu tæp 46% feðra og 90% mæðra fyrir skerðingum á greiðslum árið 2010. Sjóðurinn er fjármagnaður með hlutdeild í tryggingagjaldi og sú hlutdeild var skorin verulega niður á fjárlögum 2014 og fjárhæðir sem áttu að renna til sjóðsins látnar renna til annarra verkefna ríkissjóðs.

Þau lög sem við Íslendingar settum árið 2000 um fæðingar- og feðraorlof voru mjög framsýn og mjög stórt skref í jafnréttisbaráttunni. Ég bjó í Danmörku á þessum árum og þar var ekki mikil umræða um Ísland en þessi lög komust í fréttir vegna þess að Danir voru að velta þessu fyrir sér og þeir gátu ekki tekið ámóta skref á þeim tíma. Það er ekki gott að okkur hafi ekki tekist að tryggja að feður taki fæðingarorlof eins og markmiðið var. Þegar þakið er orðið þetta lágt og karlmenn eru með hærra kaup en konur þá er það bara þannig að fjölskyldan þarf að horfa á það hver eigi að taka sex mánuði og hver þrjá mánuði og þá eru meiri líkur á að konan sé meira heima með barninu. Þessu verður vonandi kippt í liðinn. Þetta er ekki gott.

Mig langar að minnast á Lánasjóð íslenskra námsmanna. Dregið er úr fjárframlögum til sjóðsins og það er skýrt þannig að gert sé ráð fyrir að lántakendum fækki á árinu. Einhvers staðar var tafla með, ætli hún sé ekki í fjárlagafrumvarpinu. Framlagið er rúmir 8 milljarðar í ár þegar búið er að draga frá þessa upphæð og þetta er held ég lægsta upphæð sem sjóðurinn hefur fengið síðustu fimm ár, upphæðin hefur aldrei verið jafn lág. Mér finnst það eiginlega ótrúlegt. Ég þarf að athuga þetta aftur vegna þess að þetta getur næstum því ekki passað. En það er mikið kvartað undan því að framfærslan sé of lág og við höfum heyrt marga námsmenn erlendis segja að það sé farið að hamla því að íslenskir nemar geti haldið út í framhaldsnám nema þeir hafi þeim mun betra bakland.

Við í Bjartri framtíð teljum að tími sé kominn til að endurskoða lánasjóðskerfið frá grunni. Það er þannig í dag að ekki er jafnræði meðal lántakenda. Þeir sem taka stutt nám borga upp allt lánið á meðan manneskja sem ákveður að fara í doktorsnám 55 ára og er kannski í dýru námi greiðir aldrei nema lítinn hluta til baka. Það væri örugglega hagkvæmara og réttlátara að styrkja grunnnám og svo væri hægt að veita lán, kannski á hærri vöxtum, til þeirra sem halda áfram. Ég veit ekki alveg á hverju strandar því mér hefur heyrst að hæstv. menntamálaráðherra hafi talað á þeim nótum að það þurfi að endurskoða kerfið. Ég held að brýnt sé að fara í það sem fyrst.

Löggæsla og fangelsismál er málaflokkur sem hefur verið mikið í umræðunni og við vitum að mikið hefur verið skorið niður í löggæslu og að lögreglan er undirmönnuð. Það er mjög mikilvægt að lögreglan hafi bolmagn til að sinna frumkvæðisrannsóknum. Á höfuðborgarsvæðinu hefur fjöldi lögreglumanna ekki haldið í við fólksfjölgun og oft er erfitt að manna vaktir. Víða á landsbyggðinni telur lögreglan sig ekki geta haldið uppi ásættanlegu öryggisstigi.

Það er eitt mál í þessu sambandi sem hefur vakið athygli mína og það er að á Austurlandi, þar sem eru fjölmargar hafnir og Norræna kemur á Seyðisfjörð, er eftirlitið lítið, það er t.d. enginn fíkniefnahundur á Austurlandi. Honum er flogið á milli þegar þess er talin þörf. Það þyrfti að vera miklu meira eftirlit með þessum höfnum. Bætt er í um 400 millj. kr. og það er gott en það þarf vissulega meira. Mörg lögregluembætti glíma líka við rekstrarhalla og eru jafnvel með skuldahala og það verður að vinna á því.

Varðandi fangelsismálin þykir mér ljóst að í óefni stefnir í þeim. Það er mikilvægt skref að opna nýtt fangelsi á Hólmsheiði á næsta ári, næsta vor vonandi, en ég get ekki séð í fjárlagafrumvarpinu hvernig eigi að fjármagna þann rekstur nema öðrum fangelsum verði lokað. Á sama tíma bíða 500 manns eftir að hefja afplánun. Þetta er málaflokkur sem við mundum vilja að yrði tekinn til gagngerðrar endurskoðunar. Ég verð að segja að þegar fólk er búið að bíða eftir því að hefja afplánun í einhver ár þá er spurning hvort við þurfum að fara í að afskrifa dóma eða hvað við eigum að gera vegna þess að þetta getur ekki gengið svona. Það eru hreinlega mannréttindabrot ef fólk getur ekki afplánað dóm. Svo má líka spyrja: Erum við með refsistefnu sem er út úr kortinu? Við ættum klárlega að leggja aukna áherslu á betrunarvist og úrræði eins og þau að afplána dóm undir rafrænu eftirliti. Ég treysti því að verið sé að skoða það í innanríkisráðuneytinu.

Ef Fangelsismálastofnun fær ekki aukin fjárframlög, hún fær eitthvað aðeins í breytingartillögum, fékk eitthvað í fjáraukanum í morgun, er ég hrædd um að það dugi ekki til. Þetta er mál sem þarf að skoða.

Heilbrigðismálin. Það er alveg rétt sem hefur komið fram að sett hefur verið aukið fjármagn í heilbrigðismál undanfarin ár eftir niðurskurðinn eftir hrun en það er óleystur vandi til staðar. Við höfum sett hlutfallslega lítið fé í innviðauppbyggingu í heilbrigðisþjónustunni, þ.e. tækjakaup og húsnæði og því um líkt. Hlutfallið hér á landi er með því lægsta sem gerist í OECD-ríkjunum.

Hér hefur verið talað um að aldrei hafi verið sett meira fé en nú til heilbrigðismála. Það er rétt ef horft er bara á krónutöluna og án verðlagsbreytinga. Það er gott að 30 milljónir verði settar í að gera úttekt á rekstri Landspítalans og ég er að vona að hún sýni svart á hvítu hvernig reksturinn hefur þróast. Þegar menn horfa á krónutöluna þá erum við að setja meira fé til Landspítalans núna en við gerðum fyrir fimm árum, en við verðum auðvitað að taka tillit til launahækkana og launavísitölu og þess háttar og við verðum líka að horfa til þess hvort verkefnum hafi fjölgað, hvort fleiri ársverk séu undir og þar fram eftir götunum.

Svo fann ég töflu frá Hagstofunni sem mér finnst áhugaverð en hún sýnir útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Mér finnst áhugavert að sjá að þau eru í rauninni rétt rúmlega 7% á árinu 2014 og það er sambærilegt við árin 2007 og 2008. Árið 2009 var hlutfallið 7,5% og auðvitað vegna þess að landsframleiðslan hrundi en þá var ekki dregið jafn mikið úr fjárframlögum til heilbrigðismála.

Þetta er ein leið til að skoða útgjöld til heilbrigðismála og mér finnst alltaf gott ef við getum borið okkur saman við aðrar þjóðir. Ef við berum okkur saman við Norðurlöndin þá setja allar þjóðir Norðurlanda meira en við til heilbrigðismála nema Finnar. Það er ekki þar með sagt að ef menn setji meira fé í málaflokkinn fái þeir endilega betri þjónustu. Það fer eftir því hvernig peningunum er varið. En þetta er samt ákveðin vísbending.

Húsnæðismál Landspítalans hafa verið í umræðunni vegna raka, myglu og leka og óhagræðis vegna þess að spítalinn er rekinn í mörgum byggingum á nokkrum stöðum. Viðhaldsframkvæmdir við spítalann duga skammt til að mæta þessum vanda. Frá árinu 2007 til 2015 höfum við sett tæplega 2,2 milljarða bara í viðhald. Í frumvarpinu núna er gert ráð fyrir 477 millj. kr. í viðhald. Það eru ótrúlega miklir peningar sem fara í viðhald og maður sér eftir þeim vegna þess að við erum að fara að byggja nýjan spítala. Ég held, sama hvernig maður reiknar sig fram og til baka, að það verði alltaf hagkvæmt að reyna að flýta byggingu nýs Landspítala. Þær tölur sem ég er með sýna að frá árinu 2007 til og með 2016 hafa tæplega 3 milljarðar verið settir í viðhald. Þá erum við í raun ekki að taka með þá fjármuni sem hafa verið teknir í viðhald af rekstrarfé spítalans og þeir eru líka umtalsverðir. Ég hef ekki upplýsingar um það. En ég veit að menn hafa verið að taka peninga af rekstri til þess að setja í viðhald vegna þess að framlögin hafa oft ekki dugað til. Ég hef meira að segja náð að setja það inn í álitið að samkvæmt ríkisreikningi hefur viðhald síðastliðinna tveggja ára farið tæplega hálfum milljarði fram úr fjárheimildum. Við höfum sem sagt sett hálfan milljarð umfram fjárheimildir til viðhalds á síðustu tveimur árum í Landspítalann. Ég mundi mæla með því að ráðherra heilbrigðismála mundi hraða uppbyggingu nýs Landspítala og koma húsnæðismálum spítalans í gott horf.

Það liggur líka fyrir að vaxandi þörf er fyrir nýjar legudeildir á Sjúkrahúsinu á Akureyri og legudeild geðdeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem fjárlaganefnd heimsótti sællar minningar. Við fengum að sjá með eigin augum hvernig ástandið er þar, en í úttekt landlæknisembættisins segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Legudeild geðdeildar er enn í bráðabirgðahúsnæði en hún er barn síns tíma og stenst ekki kröfur nútímans. Húsnæðið er afar þröngt og óheppilega staðsett innan sjúkrahúsbyggingarinnar. Öll er aðstaða farin að láta á sjá, loftleysið og hreinlætisaðstaða er óásættanleg.“

Í þessum húsakynnum er fólk sem á við andleg veikindi að stríða.

Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafa verið sameinaðar og vonandi næst einhver hagræðing með því þegar fram líða stundir. En það á eftir að gera upp halla á nokkrum heilbrigðisstofnunum og það liggur fyrir að hann verður ekki gerður upp nema fjárframlög verði aukin verulega, það er vandi sem hverfur ekki af sjálfu sér. Til dæmis er minnst á Heilbrigðisstofnun Austurlands í frumvarpinu sem er með verulegan skuldahala, í fyrra tapaði stofnunin líka málaferlum og bara þar kom 30 millj. kr. reikningur. Það þarf að taka á því.

Við teljum að mikið hagræði felist í því að heilsugæsla sé fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Ég held að allir séu sammála um það. Það er margt sem bendir til þess að aukin ásókn á bráðamóttöku sjúkrahúsanna sé vegna lélegs aðgengis að heilsugæslu. Stefnan hjá stjórnvöldum virðist vera sú að efla heilsugæsluna og gripið hefur verið til aðgerða eins og að fjölga heilsugæslulæknum og auka þjónustu sálfræðinga á heilsugæslustöðvum auk þess að leggja meiri áherslu á heimahjúkrun. Þetta eru jákvæð skref en við teljum að það ætti að skoða alvarlega hvernig hægt er að auka samvinnu heilbrigðisstétta í heilsugæslunni til þess að mæta þörfum skjólstæðinganna og koma úrlausnarefnum í réttan farveg. Við vitum að heimilislæknar og hjúkrunarfræðingar gegna auðvitað lykilhlutverki í heilsugæslunni en ég held að samvinna fleiri fagstétta væri af hinu góða. Til dæmis ætti að nýta þjónustu næringarfræðinga betur en nú er gert, sérstaklega í ljósi þess að hluti af þeim vanda sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir er vegna lífsstílstengdra sjúkdóma sem tengjast aukinni kyrrsetu og óhollu mataræði. Það sama mætti í raun segja um iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara og fleiri stéttir sem geta gegnt mikilvægu hlutverki í forvörnum og meðferð innan heilsugæslunnar, enda er það ekki þannig að allir sem leita þangað verði nauðsynlega að hitta lækni. Aðrar heilbrigðisstéttir geta komið að mjög miklu gagni og víða er það þannig núna að hjúkrunarfræðingar sía úr, ef svo mætti segja, og beina fólki í réttan farveg. Ég held að þetta mætti skoða með opnum huga. Svo viljum við minna á að mjög mikilvægt er að nýta sem best nútímatækni til að bæta þjónustu heilsugæslunnar og hraða eins og kostur er framkvæmdaáætlun um fjarheilbrigðisþjónustu. Það er mál sem að Björt framtíð lagði fram og fékk samþykkt.

Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Þetta er mjög jákvætt skref og kom mér mjög á óvart að það væri ekki reglan að hafa alltaf stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum, en það var nú ekki svo. Þetta er tillaga sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir lagði fram ásamt fleirum. Áætlunin miðast við 112 millj. kr. á næsta ári og alls 562 millj. kr. á fjórum árum. Þegar ég var að skoða þetta kostnaðarmat þá voru ansi mörg verkefni sem voru talin rúmast innan ramma fjárlaga. Ég hef verulegar efasemdir um að það fái staðist þegar betur er að gáð. Ég gæti alveg trúað að það þyrfti mun meira fjármagn í þetta ef vel á að vera. Þetta er gott skref en ég held að menn þurfi að vera raunsærri.

Ég kom inn á 30 millj. kr. framlag til að gera úttekt á rekstri Landspítalans. Það er mjög mikilvægt held ég og við höfum rætt það í fjárlaganefnd að þarna er rekstur upp á 50 milljarða og við erum í engum færum til að meta það hvernig farið er með þá fjármuni. Ráðuneytið á að hafa eftirlit með Landspítalanum en verkefnið er stórt, launadeildin á Landspítalanum er örugglega stærri en allt ráðuneytið. Ég held að það sé mjög gott að farið verði í úttekt. Ég hef enga ástæðu til að efast um það sem forsvarsmenn Landspítalans hafa sagt á fundum fjárlaganefndar. Ég held að það verði gott fyrir alla aðila að slík úttekt verði gerð. Það sem kemur mér kannski á óvart í þessu umhverfi á Alþingi, sitjandi í fjárlaganefnd, að ekki sé miklu meira gert af því að fara í úttektir á stofnunum. Ráðuneyti eiga að hafa eftirlit með sínum stofnunum og við eigum að hafa eftirlit með ráðuneytunum en við höfum ekki forsendur til þess ef við höfum ekki gögn. Ég held að það mætti gera meira af þessu og hvet til þess. Ég held að þeim peningum sé vel varið. Það þarf auðvitað að vanda til verka og fá hæfasta fólkið, einhver rekstrarséní til að taka þetta út og koma því þannig frá sér að það sé skiljanlegt. Þannig að ég bíð spennt eftir að sjá niðurstöðuna sem vonandi verður til þess að fjárframlög til Landspítalans endurspegli þörfina.

Mig langar aðeins að gera umtalsefni málefni fatlaðs fólks. Mikil umræða hefur farið fram um kostnað vegna þjónustunnar eftir að sveitarfélögin tóku við þjónustu við fatlað fólk. Það er okkar mat að verkefnið hafi farið vanfjármagnað frá ríki til sveitarfélaga. Mikil óánægja hefur verið meðal margra sveitarfélaga með stöðu mála, við höfum heyrt það á fundum nefndarinnar, og víða er halli á þjónustunni. Sveitarfélögin halda því fram að nýjar þjónustukröfur frá ríkinu hafi komið til eftir yfirfærslu málaflokksins sem hafi ekki verið fjármagnaðar.

Unnið hefur verið endurmat á yfirfærslu málaflokksins og vinnan dróst á langinn en niðurstöðurnar munu víst liggja fyrir. En ég hef ekki séð neitt í breytingartillögunum um að gert sé ráð fyrir einhverju uppgjöri á næsta ári, að minnsta kosti ekki í fjárlagafrumvarpinu en það gæti kannski komið á milli umræðna. Það er mjög mikilvægt að niðurstaða komist í þessi mál því að manni hefur fundist óþægilegt að hlusta á að sveitarfélög séu að hóta því að skila málaflokknum eins og fatlað fólk sé eitthvað sem menn skila bara. Mér finnst þetta ekki boðlegt.

Það er líka uppnám vegna þeirra sem nýta sér NPA sem er notendastýrð persónuleg aðstoð. Sveitarfélög hafa alla jafna ekki hækkað samningana til samræmis við kjarasamninga sem hefur haft í för með sér að notendur hafa annaðhvort þurft að stofna öryggi sínu í hættu með því að skerða þjónustu eða brjóta á rétti aðstoðarfólks til kjarabóta. Það eru 50 manneskjur sem hafa gert svona samninga við sveitarfélagið og þeir eru hluti af innleiðingarverkefni sem snýst um að gera NPA að lögbundnum valkosti í þjónustu við fatlað fólk eins og var ákveðið á Alþingi með lögum og þingsályktunum að skyldi gert. Þetta er þjónusta sem eykur möguleika notenda á að geta lifað sjálfstæðu lífi og það er okkar mat að hún henti mjög vel og eigi að vera jafn rétthár valkostur fyrir allt fatlað fólk. Margt bendir til þess að reynslan af henni sé góð.

Svo má minna á að Ísland hefur ekki enn þá fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og það ætti að vera forgangsverkefni.

Mig langar líka að tala aðeins um neytendamál en það vekur athygli mína hvað lítil áhersla er lögð á neytendamál af hálfu stjórnvalda. Framlögin til þessa málaflokks eru vart greinanleg í fjárlagafrumvarpinu og um hann eru skrifaðar þrjár setningar á blaðsíðu 362. Við erum með Neytendastofu sem er opinber eftirlitsstofnun og fær 182 millj. kr. samkvæmt frumvarpinu. Neytendastofa hefur eftirlit með verðmerkingum, lögum um neytendalán, löggildingareftirlit og öðru slíku. Síðan eru framlög til Neytendasamtakanna. Þau eru 8,1 millj. kr. og byggjast á þjónustusamningi um að samtökin sinni upplýsingaþjónustu til neytenda og þau eru auðvitað líka hagsmunaaðili, senda inn umsagnir og annað slíkt fyrir neytendur. Þessi framlög hafa ekki hækkað í mörg ár. Velferðarráðuneytið gerir einnig þjónustusamning við Neytendasamtökin sem snýr að leigjendum og styrkir samtökin um rúmar 3 millj. kr. í ár. Það kom til af því að á einhverjum tímapunkti voru fyrirspurnir frá leigjendum orðnar langstærsti málaflokkurinn og einhver varð að taka að sér að sinna því og þá var þessi samningur gerður. Samanlagt nær þetta ekki 200 millj. kr., fjármagnið til þessara tveggja aðila sem sinna þessum málaflokki. Það eru reyndar aðrar stofnanir sem sinna að hluta til neytendamálum eins og Samkeppniseftirlitið, Póst- og fjarskiptastofnun og Fjármálaeftirlitið og jafnvel Matvælastofnun. En við skerum okkur úr í hópi Norðurlanda þegar kemur að þessum málaflokki og stjórnvöld hafa alltaf verið spör á fjármagn þegar kemur að neytendavernd, neytendafræðslu og þessum málaflokki.

Ég ætla aðeins að ræða um skuldaniðurfellinguna því að það er ekki enn útséð með þau fjárútlát. Gert er ráð fyrir 15,5 milljörðum á þennan fjárlagalið í fjárlagafrumvarpi fyrir 2016. Þetta er ákvörðun sem stjórnvöld tóku árið 2013 um að verja í það minnsta 80 milljörðum til að greiða niður hluta verðtryggðra fasteignalána heimilanna. Þá er ég ekki með inni í því kostnað sem fellur á Íbúðalánasjóð vegna niðurfærslu lána hjá sjóðnum. Þessi dýra aðgerð á að vera einhvers konar leiðrétting vegna gengisfellingar krónunnar haustið 2008 sem orsakaði hækkun á verðtryggðum lánum. Björt framtíð hefur ítrekað gagnrýnt þessar aðgerðir og bent á að það tjón sem varð vegna efnahagshrunsins haustið 2008 verði trauðla bætt með þessum hætti. Þvert á móti er þetta í rauninni bara bruðl og mjög óábyrg meðferð á almannafé að deila út 80 milljörðum til fasteignaeigenda og í öllu falli óskiljanlegt að ekki hafi verið tekið neitt tillit til tekna eða eignastöðu heimila. Reyndar liggur fyrir að skuldastaða heimila var þegar farin að batna verulega áður en þessar aðgerðir komu til framkvæmda. Hún náði líka, eins og við vitum, ekki yfir önnur verðtryggð lán, svo sem námslán, þrátt fyrir að auðvitað hafi gengisfallið haft sömu áhrif á þau.

Ég ákvað að forvitnast aðeins um það hve umsýslukostnaðurinn vegna þessara aðgerða væri mikill og hann er tæpar 526 millj. kr., bara umsýslukostnaðurinn við skuldaniðurfellinguna. Það finnst mér ekki lítið. Þar að auki hefur fallið til kostnaður hjá fjármálastofnunum en ég veit ekki hvaða upphæðir er þar um að ræða.

Nú hef ég verið að rekja í þessu nefndaráliti og komið inn á að víða er fjárþörf og velferðarkerfið líður fyrir niðurskurð síðustu ára. Margir ráðherrar hafa lýst því yfir að þeir mundu gjarnan vilja sjá hærri framlög í ýmsa málaflokka og það hafa þeir gert hér í þingsal og í viðtölum og á ýmsum vettvangi en hins vegar leyfi fjárlagaramminn ekki að þeir veiti meira fé í sína málaflokka. Þá vil ég minna á að það var meðvituð ákvörðun að eyða 80 milljörðum, 80 þúsund milljónum, í nákvæmlega þessa aðgerð. Þá geta menn ekki, afsakið orðbragðið, virðulegi forseti, vælt yfir því að ekki séu til peningar í framhaldsskólana, í háskólana, í velferðarkerfið, í samgöngur, í fangelsismál og alla þá málaflokka þar sem við sjáum að það er fjárþörf.

Þetta er að mínu mati svo ótrúlega vitlaus aðgerð að ég á eiginlega ekki orð yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi látið kaupa sig inn í ríkisstjórn og sett öll sín prinsipp til hliðar um ábyrgð einstaklingsins og ábyrga meðferð almannafjár og hvað það heitir nú. Það var alveg ljóst að það var enginn annar flokkur að fara í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum með þetta brjálæðislega kosningaloforð. (Gripið fram í.) Já. Hv. þingmaður getur hlegið en það er bara þannig. (Gripið fram í.) Já, en það er mín skoðun og ég stend við hana að það hafi verið óábyrg meðferð á almannafé og það hefði mátt verja þessum 80 milljörðum á svo miklu betri hátt, m.a. til þess að lækka skuldir ríkisins og byggja upp innviði eftir mikinn niðurskurð. (Gripið fram í.) En þetta er eitthvað sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á og kjósendur ákveða hvort þeir launa henni það. Ég er bara að benda á að það fer í taugarnar á mér þegar ég hlusta á ráðherra sem voru hér á græna takkanum þegar þessi fjárlagaliður var undir, kvarta yfir því að ekki séu til peningar í annað. Þetta er pólitík. Þetta er forgangsröðun og þeir tóku ákvörðun um þetta, bara svo það sé sagt.

Mikið hefur verið talað um skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga á fundum fjárlaganefndar þegar sveitarfélögin hafa komið og mikil óánægja hefur verið með hana af hálfu sveitarfélaganna. Þau vilja meina að hlutur tilfærslna frá ríkinu sé hvergi jafn lítill innan OECD-ríkjanna og hér. Samband íslenskra sveitarfélaga bendir á að ef að sveitarfélögin eigi að geta sinnt sínum lögbundnu skyldum þá verði að treysta tekjustofna.

Þau atriði sem sveitarfélögin benda sérstaklega á er að þau telja að þau eigi að fá endurgreiddan virðisaukaskatt hvort sem er vegna framkvæmda eða kaupa á vörum eða þjónustu enda geti sveitarfélög ekki nýtt sér innskattsheimildir. Sveitarfélög ættu ekki að greiða fjármagnstekjuskatt til ríkisins. Sveitarfélög óska eftir að fá aukna hlutdeild í skattstofnum ríkisins svo sem í tryggingagjaldi, gistináttagjaldi og gjöldum af umferð og fái hlutdeild í tekjum af fjármagnstekjuskatti enda þiggja margir einstaklingar og lögaðilar þjónustu sveitarfélaga en leggja lítið af mörkum í formi skatttekna. Þá gera þau athugasemdir við að tryggingagjaldið lækki ekki en sveitarfélög eru stórir launagreiðendur.

Það var líka áhugaverður punktur sem einhverjir bentu á og sneri að Fjársýslunni. Fjársýslan sér um innheimtu útsvars og það er 0,5% og ég held að það hafi verið Hafnarfjörður sem benti á að það væri mjög hátt hlutfall en þar sem ég hef ekkert rannsakað það nánar þá bendi ég bara á það.

Það er skoðun okkar í Bjartri framtíð að skoða þurfi tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og að sveitarfélögin hafi nokkuð til síns máls. Það er mjög þungur rekstur hjá mörgum sveitarfélögum á sama tíma og ríkissjóður er að rétta úr kútnum. Það er ekki bara hægt að kenna slæmum rekstri um þá stöðu þótt það eigi vissulega við á einstaka stað. Þá liggur líka fyrir að sveitarfélög hafa mörg hver greitt með þjónustu sem ríkið ber ábyrgð á eins og rekstri hjúkrunarheimila og bent hefur verið á að daggjöldin frá ríkinu standi ekki undir eðlilegum kostnaði við starfsemi hjúkrunarheimila. Ríkisendurskoðun gaf út ágætisskýrslu um hjúkrunarheimilin og benti velferðarráðuneytinu á að gera þjónustusamning við öll hjúkrunarheimili, en misbrestur hefur verið á því.

Breytingartillögur ríkisstjórnar og meiri hluta eru dágóður pakki og vert að nefna nokkra liði sérstaklega.

Ríkisstjórnin leggur til 75 millj. kr. til að hefja undirbúning og hönnun á nýrri skrifstofubyggingu við Alþingishúsið. 3. minni hluti gerir ekki athugasemd við þá ráðstöfun eina og sér vegna þess að það er vissulega dýrt að leigja húsnæði eins og gert er í dag allt í kringum Austurvöll. Ég vil líka leggja til að það verði hreinlega byggður nýr Alþingissalur vegna þess að þessi salur er barn síns tíma og hann er ekki aðgengilegur fyrir alla. Við gætum ekki haft t.d. ráðherra í hjólastól í þessum sal og hann er þröngur og lítill þannig að mér fyndist, til að bæta úr aðgengismálum, að við ættum að byggja nýjan Alþingissal. En eins og ég segi þá gerum við ekki athugasemdir við það að farið verði í þennan undirbúning en eftirfarandi skýringar vekja spurningar, með leyfi forseta:

„Við undirbúning framkvæmda skal hafa hliðsjón af þeim áformum sem uppi voru um uppbyggingu á Alþingisreitnum fullveldisárið 1918, samanber fyrirliggjandi teikningar Guðjóns Samúelssonar, fyrrverandi húsameistara ríkisins, og áform um minningarviðburði sem tengjast komandi aldarafmæli fullveldis Íslands.“

Við teljum að ákvörðun um þau einkenni sem byggingin á að bera geti ekki verið tekin við afgreiðslu fjárlaga. Þá er ekki augljóst hvernig áform um minningarviðburði sem tengjast aldarafmæli fullveldis Íslands tengjast fyrirhugaðri byggingu. Ég skildi hreinlega ekki skýringartextann þarna.

Meiri hlutinn gerir einnig tillögu um að fjárframlög til umboðsmanns Alþingis verði lækkuð þar sem hann þurfi ekki lengur að greiða leigu. Við teljum mikilvægt að umboðsmaður hafi fjárheimildir til að geta sinnt sínu starfi og sérstaklega frumkvæðisrannsóknum og við í minni hlutanum leggjum fram sameiginlega breytingartillögu þar um.

Meiri hlutinn leggur til að stofnað verði nýtt embætti húsameistara ríkisins sem taki við hlutverki Fasteigna forsætisráðuneytisins. Ég tel þessa breytingu ómarkvissa og tilgangur hennar er óljós. Nú þegar sjá allnokkrir aðilar um rekstur og viðhald fasteigna í eigu ríkisins og það getur varla talist hagkvæmt. Við teljum betra að þessari umsýslu sé komið fyrir á einni hendi. Ég held að í dag séum við með eitthvað sem heitir húsameistari ríkisins sem er þá þetta nýja, ríkiseignir, svo er til eitthvað sem heitir Fasteignir stjórnarráðsins og síðan sér Landspítalinn t.d. um sínar eignir og háskólinn um sínar eignir og það hlýtur að vera hægt að finna einhver samlegðaráhrif þarna.

Það vekur líka athygli að við nokkra liði er skýringin sú að með fjárveitingu eigi að koma til móts við uppsafnaðan rekstrarhalla eða tryggja að ekki verði rekstrarhalli á næsta ári. Þetta á t.d. við um framlag til Háskólans á Hólum, Háskólans á Bifröst, Austurbrúar. Þá er 15 millj. kr. framlag til að greiða uppsafnaðan rekstrarhalla Snorrastofu. Ég verð að segja að það er áhyggjuefni að sjá þessi vinnubrögð. Við vitum alveg að margar stofnanir glíma við uppsafnaðan rekstrarhalla eða fyrirséðan rekstrarhalla á næsta ári. En það er gríðarlega mikilvægt og einmitt okkar hlutverk að tryggja að jafnræðis sé gætt þegar farið er í aðgerðir sem snúa að því að koma rekstri stofnana á réttan kjöl. Ráðuneytið verður að tryggja að reksturinn sé í jafnvægi og ekki komi til frekari skuldasöfnunar og eftirlit og utanumhald og allt slíkt verður að vera tryggt af hálfu viðkomandi ráðuneytis. Ég verð að segja að ég hef ekki séð neinar greiningar á vanda þessara stofnana utan Hólaskóla og ég veit ekki hvernig meiri hlutinn kemst að þeirri niðurstöðu að einmitt þessar stofnanir þurfi einmitt þessar fjárhæðir. Ég gagnrýni þessi vinnubrögð harðlega og mér finnst að slík framlög þurfi að vera hluti af einhverju stærri heild. Við einhverja breytingartillöguna var sagt að mikilvægt væri að síðan verði farið í einhvers konar starf til að tryggja að þetta gerist ekki aftur. Þetta getur ekki gengið svona fyrir sig. Þarna er ekki jafnræði.

Ég vil benda á að til eru stofnanir sem hafa greitt niður sinn skuldahala og það hefur verið gert þannig að ráðuneytin hafa gert samning og haldið utan um málið frá upphafi til enda. Ef stofnunin nær ákveðnum árangri á þremur árum er kannski einhver hluti látinn niður falla. Hérna er verið að tína til einhver fjárframlög og ég spyr: Af hverju ekki þessi stofnun, af hverju ekki hin? Af hverju Snorrastofa, af hverju ekki eitthvað annað? Mér finnast þetta ekki góð vinnubrögð. Ég er ekki að segja að þessar stofnanir séu ekki allra góðra gjalda verðar, en mér finnst þetta skrýtið. Ég skil ekki að fjárlaganefnd sé að fiffast í þessu.

Á síðasta ári gerði meiri hlutinn margar breytingartillögur sem sneru að safnliðum. Það er verkefni sem sett voru inn í ráðuneytin 2012 og átti að úthluta þaðan á faglegan hátt og eftir þar til gerðum verkferlum. Ástæðan var sú að úthlutanir fjárlaganefndar gátu verið tilviljunarkenndar og það er mjög mikilvægt þegar við erum að útdeila almannafé að við gætum jafnræðis eins vel og hægt er. Í fyrra gaf meiri hlutinn þau rök að þriðji geirinn hefði gleymst. En það var þó ekki allur þriðji geirinn sem naut gjafmildis meiri hlutans. Í ár er bætt um betur og virðist sem gamla verklagið sé að festa sig í sessi en þó þannig að aðeins meiri hlutinn hefur aðkomu að fjárveitingum. Þar sem tillögurnar lágu ekki fyrir fyrr en 5. desember hef ég ekki haft neinn tíma sem heitið getur til að skoða þær ofan í kjölinn eða fá útskýringar á þeim og hvaða forsendur liggja til grundvallar ákvörðunum meiri hlutans. Mér finnst þessi vinnubrögð vera afturhvarf til fortíðar og ekki í samræmi við stefnu sem er mörkuð í nýjum lögum um opinber fjármál sem Alþingi er að samþykkja á sama tíma og við ræðum fjárlagafrumvarpið. Þetta eru mér vonbrigði.

Þá vekja líka athygli fjölmargar tillögur sem settar eru fram sem snúa að verkefnum sem norðvesturnefndin svokallaða hefur lagt til. Þetta eru verkefni sem eiga að efla byggðaþróun og fjölga atvinnutækifærum á Norðurlandi vestra. Mér telst til að það séu um 250 millj. kr. sem fara í verkefni sem snúast m.a. um fjölgun á hvíldarrýmum á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, flutnings starfs á vegum Minjastofnunar, uppbyggingu nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs á Sauðárkróki, áreiðanleikakönnun á lífdísilframleiðslu á Blönduósi, og selarannsóknir. Einn liðurinn er 80 millj. kr. framlag til byggðastyrkingar á Norðurlandi og vantar skýringar á því hvað nákvæmlega verður gert við þær milljónir.

Við höfum skilning á þeim vandamálum sem blasa við á Norðvesturlandi en það blasa við vandamál á mörgum öðrum landsvæðum líka. Mér finnst það ekki réttlæta þessi vinnubrögð. Það hafa ekki verið settir á fót starfshópar um hin og þessi byggðarlög sem rata beinustu leið inn í fjárlög. Þá vil ég minna á sóknaráætlun landshluta og það fyrirkomulag sem ég lýsti áðan sem mér finnst til fyrirmyndar. Ég hefði miklu frekar viljað sjá þessa peninga fara inn í sóknaráætlun landshluta. Mér finnst það auðveldari leið til að tryggja jafnræði sem hlýtur að vera útgangspunkturinn þegar við deilum út opinberu fé. Síðan eru nokkur verkefni þarna sem falla einfaldlega undir samkeppnissjóði. Það er miklu betri leið að efla samkeppnissjóði og ákveða kannski að ákveðið hlutfall fari úr þeim til staða sem við getum kallað brothættar byggðir eða þar sem er einhvers konar byggðavandi. Þá sitja allir við sama borð.

Minni hlutinn gerir breytingartillögur sem við kynntum í dag og snúa að aukningu í sóknaráætlun landshluta, Landspítala, háskóla og framhaldsskóla m.a. og Fæðingarorlofssjóð og lagt til að kjör ellilífeyrisþega og öryrkja verði bætt og fylgi hækkun lágmarkslauna.

Ég ætla að koma aðeins inn á tekjurnar. Við eigum eftir að ræða bandorminn og gerum það vonandi í vikunni. Afnám tolla af fatnaði og skóm er jákvætt skref og mun vonandi vænka hag neytenda og styrkja íslenska verslun. Ég er ekki sannfærð um að það sé rétt skref að fækka tekjuskattsþrepum úr þremur í tvö. Við ræddum það hérna þegar við vorum að breyta virðisaukaskattinum, færa þrepin nær hvert öðru með það að markmiði að enda í einu þrepi eins og ég skildi það, að virðisaukaskattskerfið væri ekki gott til tekjujöfnunar og ég get alveg tekið undir það. En þá þurfum við að vera með tekjujöfnunina einhvers staðar annars staðar og það er í þrepaskiptu skattkerfi mundi ég halda.

Síðan kemur auðvitað á óvart að ekki skuli vera nein áform um að lækka tryggingagjaldið. Ég skil vel mótmælin sem eru vegna þess.