145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Hv. forseti. Þarna erum við hjartanlega sammála. Ég hef talað mjög fyrir því síðan ég sat í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar að fyrst þurfi að skilgreina hvert hlutverk viðkomandi stofnunar er samkvæmt lögum og svo eigi að fara yfir rekstrarforsendur og þann rekstur sem þar á að fara fram í viðkomandi stofnun og tálga stofnunina þá að innan ef hún er komin út fyrir verksvið sitt, sem er svo vinsælt hjá ríkisstofnunun, eða bæta við fjármagni ef skoðunin leiðir í ljós þörf á því. Ég held að það hafi verið tímamótasamningur sem gerður var við Landspítalann að því leyti að þá eru allir á sömu blaðsíðu og ekki verið að kasta fullyrðingum fram og til baka, þá vita allir hverjar forsendur fjárlaga eru strax í upphafi árs.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um eitt sem ég er óánægð með. Hún og þingmenn Bjartrar framtíðar hafa beitt sér alveg gríðarlega gegn skuldaniðurfellingarleið Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar og talið henni allt til foráttu. Þau eru þar með að tala niður til 100 þús. Íslendinga sem hennar nutu með þeim rökum að hægt hefði verið að nota féð í annað. En þetta var fé sem við sóttum beint til kröfuhafanna, (Forseti hringir.) sem fyrri ríkisstjórn hafði ekki kjark til að gera. Telur hún það ekki jákvætt (Forseti hringir.) skref að það kemur í ljós í fjáraukalögum að ríkið borgar minna í vaxtabætur (Forseti hringir.) vegna þess að nú á fólk meira í húsnæði sínu?