145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held við ættum að skoða það með hvaða hætti við getum fjölgað úttektum á stofnunum ríkisins. Eins og ég skil þetta erum við með hlutfallslega sterkar stofnanir á Íslandi en veik ráðuneyti. Mér hefur stundum fundist að ráðuneytin hafi í rauninni ekki bolmagn til að hafa eftirlit með undirstofnunum sínum. Ef þau hefðu það þá fengjum við ekki skýrslur frá Ríkisendurskoðun sem sýna hallarekstur stofnana ár eftir ár eftir ár.

Varðandi skuldaniðurfellinguna þá verðum við, ég og hv. þingmaður, að vera sammála um að vera ósammála um það mál. Ég get ekki sætt mig við að við séum að eyða peningum með þessum hætti. En jú, vaxtabætur eru að lækka vegna þess að hagur heimilanna er að vænkast, það er rétt. En þá finnst mér við líka geta farið að ræða það að við erum með hávaxtamynt hér og ríkið þarf að greiða bætur til þeirra (Forseti hringir.) sem kaupa sér húsnæði vegna þess að vextir eru svo háir. Mér finnst að við ættum þá að ræða það að taka upp gjaldmiðil sem mundi bjóða okkur (Forseti hringir.) betri vaxtakjör.