145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég segi það aftur: Ég vil tala við hv. þingmann af háttvísi um heilbrigðismál vegna þess að hann þekkir þau. Ég er honum ósammála um margt þar en hann hefur margt málefnalegt fram að leggja í þeim efnum.

En herra trúr. Hv. þingmaður kemur hér og brúkar sig, finnst mér, um það hvernig staðan er og talar um að stóru línurnar séu góðar. Hvenær hefur það gerst í lýðveldissögunni áður að Sjálfstæðisflokkurinn, ráðdeildarflokkurinn sjálfskipaði, sé í ríkisstjórn og það sé það sem bankastjóri Landsbankans kallar blússandi góðæri, tekjur ríkissjóðs eru að nálgast 700 milljarða og hann skilar af sér innan við 11 milljarða í afgang? Þetta er ömurleg frammistaða af flokki sem vill predika ráðdeild. Hvenær er það sem við eigum að ná að skila afgangi ef ekki svona? Hvers vegna tekst það ekki? Jú, þeir eru að búa til Stjórnstöð ferðamála, þeir eru að búa til nýtt sendiráð í Strassborg, en hv. þingmaður kom sér undan að svara því. Ég spyr: (Forseti hringir.) Hvernig stendur á því að hann er að opna sendiráðið sem ég lokaði í sparnaðarskyni? (Forseti hringir.) Hvernig stendur á því að hann er að búa til þriðju ríkisstofnun í ferðamálum við hlið tveggja sem fyrir eru?