145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég hélt ég yrði ekki eldri því að ég var sammála hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Það hefur ekkert gerst voðalega oft í lífinu áður. Miðað við þessa stóru mynd sem hann talaði um, og upptalninguna á öllum þessum stofnunum sem hann taldi of miklum peningi veitt í, þá hljómaði ekki eins og það væri neitt mikið eftir í afganginn af stóru myndinni þegar upptalningin var búin hjá hv. þingmanni.

Varðandi fjölgun aldraðra þá er það mjög fyrirsjáanlegt vandamál, rosalega fyrirsjáanlegt; með áratugafyrirvara. Við stefnum í þá aldursdreifingu í landinu að við verðum að fá varanlega lausn á því hvernig við ætlum að glíma við ellilífeyriskerfið. Það er mjög flókið að láta núverandi kerfi virka með því aldurshlutfalli þjóðarinnar sem kemur til með að verða á allra næstunni og til framtíðar.