145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:14]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum í einu orðinu að segja að ráðuneytin ráði ekki alveg við þetta og þar af leiðandi erum við að taka þetta aftur inn í nefndina, þ.e. meiri hlutinn. Áðan talaði hv. þingmaður um hlutverk sitt og eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Mér hefur fundist eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu vera mjög rýrt. Mér finnst eins og meiri hlutinn sé framlenging á ríkisstjórninni, svona eins og mér fannst Bændasamtökin vera framlenging á landbúnaðarráðuneytinu um tíma, og vanta upp á að þingmenn meiri hlutans séu tilbúnir að vera raunverulegt aðhald á framkvæmdarvaldið.

Þyrftum við ekki að gera meira af því í fjárlaganefnd að vera þessi eftirlitsnefnd? Kalla þá til okkar ráðherrana; ekki bara ráðuneytin heldur ráðherrana sem bera ábyrgð á sínum ráðuneytum. Og setja kannski meiri tíma í að tryggja að ráðuneytið skoði að Snorrastofa, eða hvað það er, greiði upp sinn uppsafnaða halla og fylgist með og þar fram eftir götunum. (Forseti hringir.) Hvernig ætlar meiri hluti fjárlaganefndar að fylgjast með því að þessum peningum verði síðan raunverulega vel varið?