145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki taka því þannig að við séum búin að taka þetta allt saman inn í nefndina. Við höfum ekki gert það. Hv. þingmaður hefur hlustað á sveitarfélögin tala. Hv. þingmaður hefur sjálfur komið með tillögur um þetta. Ég er að vísa í tillögu sem liggur fyrir um ákveðið verkefni sem tengist ákveðnu svæði. Það sem þetta snýr að eru oft svæði sem eiga um sárt að binda, ef svo má að orði komast. Fjarskiptaverkefni sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur átt frumkvæði að, ljósleiðaraverkefnið, er til komið eftir að við vorum búin að hlusta á sveitarfélögin, hafnirnar o.s.frv. Þannig að þetta er ekki allt klippt og skorið. Ég er ekki sammála því og finnst ósanngjarnt að segja að við höfum ekki stigið skrefið varðandi eftirlit. Nú er það þannig að hv. fjárlaganefnd byrjar strax eftir áramót að fylgjast með stofnunum. Það er það sem er gert. Það hefur ekki verið gert í þessum mæli áður. Kannski eitthvað. En við erum að fóta okkur og ég tel að þetta verði aldrei fullkomið. Það er ekkert fullkomið í hinum löndunum heldur. En ég tel að við séum á réttri leið hvað þetta varðar. Ég er sammála hv. þingmanni að við þurfum að sinna eftirlitinu betur. En það verður auðveldara því betur sem við þekkjum inn á kerfið, (Forseti hringir.) sem er ansi flókið og í rauninni virðist það þannig hannað að fólk eigi ekki að skilja það.