145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég má túlka orð hv. þingmanns þannig að hann sé þeirrar skoðunar að það hafi verið mistök af Íslands hálfu að efla ekki fyrsta viðkomustaðinn í heilbrigðisþjónustunni, heilsugæsluna, þá er ég sammála því. Við erum þá sammála um eitthvað. Ég geng lengra og segi að það hafi verið mesta ógæfa okkar í heilbrigðismálum að framkvæma aldrei til fulls heilbrigðislögin frá 8. áratugnum sem gengu einmitt út á að byggja upp öflugar heilsugæslustöðvar um allt land. Því verkefni var aldrei lokið og sérstaklega ekki hér á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur reynst okkur dýrt.

Síðan má hv. þingmaður tala af öllu því yfirlæti sem hann vill og trúa á sinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. Það haggar ekki þeirri skoðun minni og niðurstöðu, studdri af fjölmörgum rannsóknum og samanburði milli landa og innan landa, að öflugt opinbert heilbrigðiskerfi, fjármagnað með almennum skatttekjum, sem stendur öllum til boða án teljandi gjaldtöku, er þjóðhagslega hagkvæmast, tryggir best jafnræði þegnanna og skilar bestri niðurstöðu. Öflugasta sönnunin fyrir hinu gagnstæða er auðvitað heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna sem er langdýrasta heilbrigðiskerfi í heimi (Forseti hringir.) og með þeim afleita árangri að tugir milljóna Bandaríkjamanna eru án grunnþjónustu.