145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú höfum við hv. þingmaður oft tekist á hérna og kannski verið með stóryrði hvor við annan. Ég ætla að biðja hv. þingmann að kynna sér greinina sem ég las áðan. Það sem hann taldi upp; allir hafa aðgang með litlum kostnaði, fjármagnað af hinu opinbera, er til staðar í einkareknu heilsugæslunni á Íslandi. Þannig er Salahverfismódelið. Hverfisheilsugæslan hefur reynst einstaklega vel. Sömuleiðis Lágmúlinn og sjálfstæðu heimilislæknarnir. Læknirinn sem ég vitnaði til, sem er forstjóri Lækningar, var í stuttri grein að fara yfir reynsluna í Svíþjóð og Noregi. Menn eru ekkert að brjóta þau prinsipp. Það er það sem ég er að reyna að koma áleiðis. Það eina sem ég segi er: Lesið þessa grein og skoðið þær rannsóknir sem liggja þar á bak við og reynslu hinna norrænu þjóðanna.