145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við sem erum eldri en tvævetur þekkjum það hvernig einkareksturinn brýtur sér leið inn í velferðarþjónustuna. Þetta byrjar allt voðalega sakleysislega. Í næstu umferð kemur krafan um arðgreiðslur til eigendanna sem hafi sett fjármagn inn í reksturinn o.s.frv. Ætli þeir séu ekki eitthvað að bíta úr nálinni með það í Svíþjóð.

Svo ætlaði ég að segja að það sem hv. þingmaður nefndi um tannlækningar er auðvitað dæmalaus málflutningur, að við höfum staðið fyrir stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar með því að taka á því ófremdarástand sem var að byggjast upp í tannheilbrigðismálum barna og ungs fólks á Íslandi þar sem ríkti frumskógarlögmál. Jú, við náðum utan um það með því að koma því inn í samning og tryggja mönnum þjónustuna, tryggja að börn og ungmenni ættu rétt á lágmarksþjónustu án gjaldtöku, að samningur ríkisins væri á grundvelli gjaldskrár við tannlækna. En við settum ekki upp tannlæknaþjónustu ríkisins til að veita þjónustuna ef það er það sem hv. þingmaður er að biðja um. Við tókum þá praktískustu lausn sem var í boði til þess að taka á ófremdarástandi sem allir viðurkenndu að væri að hlaðast upp í tímasprengju þar sem tannheilbrigði barna og ungmenna á Íslandi var að hraka stórlega. (Forseti hringir.) Fyrrverandi ríkisstjórn á heiður skilinn fyrir að klára það sem hv. þingmaður gat aldrei sem heilbrigðisráðherra, að taka á tannlæknamálunum.