145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa ræðu. Við eigum það sammerkt að við höfum áhyggjur af fangelsismálum í landinu og erum báðar mjög meðvitaðar um að reksturinn er tæpur út af öryggi fangavarða. Meiri hlutinn lagði til í fjáraukalögum, sem voru samþykkt í þinginu í dag, að 20 milljónir færu í rekstur fangelsanna. Jafnframt höfum við lagt fram breytingartillögu í fjárlögunum fyrir 2016 um að 45 milljónir bætist við í reksturinn, sem samtals gera þá 65 millj. kr. innspýtingu í rekstur fangelsanna.

Ég er á þeirri skoðun að það þurfi að skoða fangelsismál á Íslandi, eins og þingmaðurinn kom inn á, vegna þess að ég hef alltaf verið talsmaður þess að í fangelsunum fari fram betrunarvist en ekki refsing. Ég held að vilji hæstv. innanríkisráðherra sé í þá veru og jafnvel er tímabært að allt sem snýr að fangelsismálum verði tekið til gagngerrar endurskoðunar.

Þingmaðurinn spurði hér um mínusfærslu vegna umboðsmanns Alþingis. Fyrir einu og hálfu ári flutti umboðsmaður Alþingis í húsnæði sem Alþingi á. Það hefur alltaf verið þannig með ríkisstofnanir að ef þær fara úr leiguhúsnæði, sem embætti umboðsmanns Alþingis var vissulega í í Álftamýri, þá hefur húsaleiga fallið niður um leið ef viðkomandi stofnun fer í ókeypis húsnæði eins og hér er um að ræða. Það breytir því ekki að við leggjum til þær fjárveitingar sem óskir bárust um frá embættinu varðandi lagfæringar á húsnæðinu þó að það sé mjög skrýtið að embættið skuli sækja um slíkt. Alþingi ætti frekar að sækja um slíkar fjárveitingar því að Alþingi á húsnæðið. Þetta er því eiginlega frekar svar en spurning til að svara þeim spurningum sem þingmaðurinn hafði.