145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:42]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svar hv. þingmanns. Það gleður mig að hún vilji gera betur í málefnum fanga. Ég vona að hún sjái að það þurfi að gera enn betur. Hæstv. innanríkisráðherra hefur sagt að það þurfi um 800 milljónir, upp undir milljarð, til að koma til móts við þá eklu sem er í málaflokknum og það þurfi að gera mun betur. Þess vegna leggjum við til 80 milljónir til viðbótar til að koma til móts við það sem hæstv. innanríkisráðherra hefur sagt nú þegar. Það er frábært að það séu komnar 65 milljónir í þennan málaflokk. Hins vegar vantar enn að minnsta kosti 35 milljónir til að gera eins vel og mögulegt er miðað við aðstæður.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, að þegar stofnun færi í eigin húsnæði ætti leiga að falla niður. Hins vegar verður að sýna því skilning að ýmis annar rekstrarkostnaður hlýst af því að vera í húsnæði á vegum þingsins. Þar vegur hæst almenn öryggisgæsla sem hækkar úr 250 þús. í 1,4 milljónir. Þar að auki eru fasteignagjöld, sem umboðsmaður Alþingis þarf að greiða, 2,4 milljónir. Samtals eru þetta gjöld upp undir 8 milljónir. Það þarf einhvern veginn að koma til móts við þennan rekstrarkostnað.

Það er rétt sem þingmaðurinn segir að komið hefur verið til móts við ýmislegt sem umboðsmaður Alþingis hefur nefnt. Hins vegar er það ekki þannig að hann megi við því að missa allar þessar 13 milljónir. Forstöðumenn bera ábyrgð á rekstrinum og umboðsmaður Alþingis er sjálfur forstöðumaður fyrir þessu húsi þannig að hann þarf að borga alla reikningana, þar á meðal 2,4 milljónir í fasteignagjöld. Það væri til bóta að koma einhvern veginn til móts við hann að því leytinu til.