145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau eru víða sandkornin sem stofnanir ríkisins sækja í við fjárlagagerð. Það birtist ágætistafla í nefndaráliti meiri hlutans þar sem hækkanir til umboðsmanns Alþingis eru sýndar á þeim viðmiðunarárum sem eftirlitsstofnanir ná til. Mig minnir að það sé frá 2007 eða 2008. Fjárframlög til umboðsmanns Alþingis hafa hækkað um 100% á þessu tímabili, sem er til dæmis langt umfram allar stofnanir í heilbrigðisgeiranum. Ég held að það sé kannski með þessa stofnun eins og Ríkisendurskoðun, sem dæmi, sem er einnig stofnun þingsins, að það þurfi aðeins að skoða reksturinn því að að mínu mati eru þessar tvær stofnanir farnar að fara inn á svið hvor annarrar og eins Ríkisendurskoðun sem á bara að skoða fjárhagsmálefni ríkisins en er farin að gera stjórnsýsluúttektir og taka fyrir mál sem eiga heima hjá umboðsmanni Alþingis. Það er mín skoðun að það þurfi aðeins að skoða (Forseti hringir.) þennan stofnanastrúktúr og kannski verða þessi fjárlög til þess að það verði gert í auknum mæli.