145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir beinskeytta og málefnalega ræðu hér rétt áðan. Aðalerindi mitt hingað í þennan ræðustól er að lýsa stuðningi við tillögu hennar um að veitt verði aukið fjármagn í frumkvæðisathuganir á vegum umboðsmanns Alþingis. Ég hef verið talsmaður þess um langt skeið, oftast fyrir daufum eyrum, og minnist þess þegar ég talaði fyrir því einn fárra þingmanna hér fyrir ári síðan þegar rætt var um skýrslu umboðsmanns þar sem þetta var tekið upp af miklum krafti. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að vera sérstakur fjárlagaliður fyrir frumkvæðisathuganir embættisins.

Hins vegar þarf hv. þingmaður ekki að fara í neinar grafgötur með að það er enginn vilji til þessa af hálfu fjárveitingavaldsins og allra síst þeirra sem nú sitja. Viðhorf hv. þingmanns, formanns fjárlaganefndar, komu algerlega skýrt fram hérna áðan. Hún hefur margoft greint frá því að henni finnist þessar eftirlitsstofnanir, sem eru mesta aðhaldstæki Alþingis í dag, farnar langt út fyrir sitt verksvið. Það er ekki að sökum að spyrja, við höfum séð hvers þær eru megnugar. Við sáum að starfsemi umboðsmannsins leiddi nánast til þess á síðasta ári að ráðherra þurfti að segja af sér. Vitaskuld er ekki neinn sérstakur vilji til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að verðlauna viðkomandi stofnun. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að þegar verið er að klípa af stofnunum sem eru tiltölulega smáar að vöxtum þá sé það ekki tilviljun. Hv. þingmaður sem talaði áðan sagði að það væri margt sandkornið, en þetta skiptir máli fyrir rekstur svona lítilla stofnana. Eins og hv. þingmaður greindi mjög skelegglega frá þá munar umboðsmann Alþingis um þetta.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún sé mér ekki sammála um það að í þessu birtist ákveðinn kali af hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart embættum.