145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:49]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir það einfaldlega vera merki um sjálfstæði þingsins að umboðsmaður Alþingis geti sinnt frumkvæðisathugun. Eins og sagt er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þá er rullan um eftirlitsiðnaðinn, að hann megi ekki vera íþyngjandi, nokkuð sem byrjaði á tíunda áratugnum með nýfrjálshyggjunni. Eftirlitsiðnaðurinn er hluti af samfélaginu. Það er náttúrlega fyrir neðan allar hellur að við séum að fjársvelta umboðsmann Alþingis. Þetta snýst um það og þetta snýst um pólitík. Þetta snýst líka um að umboðsmaður Alþingis þurfi að vera fyrir utan pólitískan ágreining þegar kemur að því hvernig eigi að fjármagna stofnunina. Rekstur hans þarf stöðugleika og það þarf að vera þverpólitísk sátt um tilvist hans. Ef svo er ekki þá þurfum við að ræða það betur, en svo virðist vera sem ekki séu allir tilbúnir að sætta sig við niðurstöður umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður Alþingis er ekki mjög dýr stofnun en sinnir rosalega veigamiklu hlutverki fyrir samfélagið og fyrir Alþingi.

Tillagan í fjárlögunum er mjög hógvær. Það er verið að biðja um 4,5 milljónir í hálft starf, stöðugildi, til að létta af umboðsmanni Alþingis þar sem hann þarf að sinna mörgum daglegum störfum sem eru háð rekstri, 3 milljónir eru til að skipta um gler og klóak og 8 milljónir eru framkvæmdir sem eru bara til að auðvelda aðgengi fatlaðra. Þetta er hús frá 1912. Þetta er hús sem þarf að gera við. Þrátt fyrir að leigan falli niður þá þýðir það ekki að önnur útgjöld falli niður. Það koma ýmis önnur útgjöld. Það er bara eðli rekstrar að hlutirnir færast til í bókhaldinu þó að leiga hverfi. Og það að vera hótað með því að endurskoða þurfi þessar stofnanir er náttúrlega mjög alvarleg pólitísk yfirlýsing.